föstudagur, 14. apríl 2023

MB23 - 18. kafli - Hawaii - Eyjarferð

 12. - 14. apríl

Dagurinn 12. apríl var töskudagurinn mikli. Við vorum orðin svo þreytt á því að vera í sömu fötunum síðustu vikur að ein helsta lausnin var að auka innra plássið, þ.e. að kaupa stærri tösku (We need a bigger boat).

Eftir að hafa reikað um svæðið í nokkurn tíma fór bóndinn á Alnetið (í dag nefnt Netið) og sá að Macy's var með tilboð á ferðatöskum, 50% afsláttur. Verandi af "Afsláttarkynslóðinni" þá féllum við algerlega fyrir þessum skilaboðum, þó nánast öruggt sé að verðið hafi verið hækkað ríflega áður en það var "lækkað" með afsláttarprósentu.

Smá ves samt, Macy's var í um 3 km. fjarlægð og því rúmlega 6 km. í heildina. Við létum slag standa og skunduðum af stað, hentumst inn í búðina, sem var fáránlega stór, og nældum okkur í tvær Samsonite töskur fyrir ca. 50 þús kr., sem þykir nokkuð gott, höldum við allavega. Ein stór ferðataska og önnur í "handfarangursstærð".

Svo var haldið aftur af stað til baka í Waikiki hverfið, en þar sem gangstéttarnar eru frekar ójafnar var haldið á töskunum alla leið, öðrum vegfarendum til nokkurrar furðu, "meat on the bones there", héldu kannski einhverjir, en svo var auðvitað ekki, enda galtómar töskur.

Ein öskraði á okkur:" How much did you pay for these", Uhhhh, "It was a price, but not a gift", úff, þessi frasi hefði líklega komið betur út í Google translate (Gjöf en ekki gjald).

Þennan dag gengum við samtals um 14 km. og því fín hreyfing að fara eftir töskunum.

Næsta dag komumst við því miður að því að Macy's er líka með búð mjög nálgæt hótelinu, en við erum alveg viss að Google var ekki búið að uppfæra "maps" forritið, fyrr en nóttina á eftir.

Loftslagið er mjög gott hérna, hafáttin heldur öllu gangandi og helstu skordýrum í fjarlægð. Ekkert bit er sjáanlegt á hjúnunum, miðað við allt skordýraátið í Frönsku Pólýnesíu.

Hitinn er ca. 24 -28 gráður og skýjafarið þannig að sólin er ekki baðandi geislum sínum öllum stundum yfir daginn.

Þann 13. apríl fórum við á ströndina hér rétt hjá hótelinu. Mjög margt um manninn þar, en samt svo rólegt og afslappað. Ekkert sölufólk, sem skiptir nánast öllu máli þegar þú vilt njóta þess að vera á ströndinni. Ekkert er meira pirrandi en uppáþrengjandi sölumanneskja á 5 mín. fresti!

14. apríl var dagurinn tekinn snemma því á döfinni var ferð um eyjuna fögru. Ferðin var mjög fín, leiðsögumaðurinn náði þeim einstaka áfanga að tala viðstöðulaust allan tímann, svo mjög að systur nokkrar frá ákveðnum bæ á Suðurlandi og allir þeirra afleggjarar, fölnuðu í samanburði við þennan ágæta unga mann. Upplýsingaflæðið var gífurlegt, sumir sofnuðu, en flestir náðu ca. 5% af því sem fram fór. 

Í máli hans var nokkuð tæpt á tungumáli innfæddra og í höfði okkar hljómuðu mjög svo klassískir hljómar, waka - kaliki - hatuku - makaka, en ekkert af þessum tilheyrir tungumálinu, bara endurómur af orðaflaumi dagsins.

Ferðin var mjög skemmtileg, fyrir utan heimsóknina til Dole ávaxtarisans. Þar komum við til að skoða ananasræktun og kaffi og kakóbaunaræktun. Þegar við komum á svæðið gaf að líta ananasplöntur, sem við reyndar sáum víða í Asíu, og kaffibaunaplöntur. 

Það sem gerði heimsóknina eftirminnilega óspennandi var að koma inn í húsnæðið þar sem þú getur keypt ananans allskonar; ananasbrúður, ananasveski, ananashúfur, ananaskaffi (já, í alvörunni) og ananas þetta og hitt, á sturluðu verði, t.d. 1 lítill kaffipakki á 35 USD (ca. 4.800 kr.). Þetta var eins og að koma inn í gestastofu á fjölsóttum ferðamannastað á sterum. Ekki skemmtileg upplifun.

En samt sáum við og raunar föðmuðum tré sem ku vera svokölluð "rainbow eucalyptus" tré sem eru mjög falleg og í öllum regnbogans litum. Það var eina jákvæða upplifunin við Dole heimsóknina. Þetta fyrirtæki er greinilega "all in" þegar kemur að álagningu og því að ná aurum af fólki.

Sem dæmi má nefna að þurrkaður ananas í poka sem telst vera með 20% ávaxtasykri, er líka með önnur 20% af viðbættum sykri, svona til að gera þetta nú nógu sætt...........

Í hringferðinni sáum við hve falleg eyjan er, þegar komið er út fyrir mestu ferðamannaþvöguna. Heimamenn, og kannski Bandaríkjamenn yfir höfuð, eru gífurlega uppteknir af því hvaða kvikmyndir og/eða sjónvarpsþættir hafa verið teknir upp hér og þar. Það voru ansi margir titlar þuldir upp með tilheyrandi "Vá'i" ferðafélaga okkar, en okkur sjálfum fannst það nú ekkert spes, af einhverjum orsökum.

T.d. "In this coffee house the left, Ben Stiller said in the movie blablabla: "Can I get a latté". Og hvað er merkilegt við það, humm?

Hér eru líka fjölmargar fasteignir í eigu ríkustu einstaklinga jarðarkringlunnar, en það er líka einhvern veginn hálf óspennandi, sorrý með okkur, við náum bara alls ekki þessari hrifningu og dýrkun.

Í dagslok fórum við aftur á góða fiski taco staðinn og pöntuðum sama réttinn og áður, hann var alveg jafn brjálaðislega góður og síðast.

Og já, við höfum ekki heyrt okkar ylhýra tungumál af vörum annarra síðan í byrjun febrúar, en það gæti nú breyst fljótlega.....














Engin ummæli:

Skrifa ummæli

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...