miðvikudagur, 22. mars 2023

MB23 - 11. kafli - Víetnam - 6. hluti

Cu Chi göngin

Dagurinn hófst á því að aka í norðvestur frá Ho Chin Minh (Saigon) borg og í áttina að Cu Chi göngunum. Gerð gangnanna tók um 30 ár og gengdu þau mikilvægu hlutverki í varnabaráttu Víetnama gegn innrás Bandaríkjamanna í stríðinu (1959-1975).


Göngin voru alls um 250 km. löng, en eru í dag 120 km. vegna ýmissa áhrifaþátta, t.d. veðurfars og framkvæmda.

Jarðvegurinn er einkar hentugur til jarðgangnagerðar, leirkenndur og sendinn. Að ganga á þessum jarðvegi er mjög líkt því að ganga á steinsteypu.

Göngin voru á þremur hæðum og náðu um 20 metra dýpt. Á svæðinu er ekki mikið um rótarstór tré og því ganga ræturnar ekki inn í göngin. 

Í göngunum voru eldhús, spítalar, saumastofur, fundarherbergi, hvíldarherbergi, vopnageymslur, vopnagerð, skorbyrgi og líka gildrur ef óvinirnir komust niður í göngin.

Öndunarop voru leidd niður í göngin og á yfirborðinu litu opin út fyrir að vera hluti af mauraþúfum. Bandaríkjamenn komust að þessu og fundu aðferðir til að finna opin. Dælt var gasi og eldfimu efni til að sprengja upp göngin og eitra fyrir þeim sem þar voru. En Víetnamar fundu á endanum aðferð til að fela þau; tóku fatnað amerískra hermanna og settu hann við opin. Þetta varð til þess að hundarnir hættu að veita þessum opum athygli.

 

Víetnamar notuðu ósprungnar sprengjur til að útbúa jarðsprengjur og stingi í gildrur. Ýmis konar gildrur voru útbúnar í frumskóginum sem óvinaherinn gekk inn í. 

Bandaríkjamenn úðuðu eiturefnum yfir Víetnam í 10 ár, 1961 - 1971, sem kallað er "Agent Orange" sem hefur valdi gífurlegu tjóni á gróðri og íbúum á svæðinu. Einnig hafði þessi eiturefnahernaður áhrif á Bandaríska hermenn og afkomendur þeirra. Ennþá eru að fæðast einstaklingar með mikla og alvarlega fæðingargalla vegna þessa.

Við prófuðum sjálf að fara um göngin og verður að segjast að það var þröngt að komast um þau. Það er erfitt að gera sér í hugarlund hvernig það var að dvelja í göngunum í lengri og skemmri tíma, með skordýr, skriðdýr og fleira sem hafði heilsufarsleg áhrif á Víetnamana.



Gestum býðst að skjóta úr AK-47 og AK-60 byssum, sem og hríðskotabyssum á sérstöku skotsvæði sem búið er að koma fyrir ofan á yfirborðinu við göngin. Við slepptum því að prófa, en það var svolítið sérstakt að heyra byssuhvellina á meðan gengið var um skóginn og farið um göngin.

Handverk

Við heimsóttum vinnustofu þar sem afkomendur þeirra sem lentu í eiturefnahernaðinum í Víetnamstríðinu gegn Bandaríkjamönnum vinna við að útbúa falleg málverk með sérstakri aðferð. "Lacquer" nefnist aðferðin og er árangurinn afar flott málverk þar sem notaður er eggjaskurn og skeljar við myndlistina.

Núna er 4. kynslóðin við störf í handverkinu og ennþá má sjá einstaklinga sem glíma við afleiðingarnar af eiturefnahernaðinum.

Leynihúsið í Saigon

Næst lá leiðin í lítið hús í miðbæ Ho Chin Minh borgar, "Bó Ván Hóa" heitir húsið. Þangað var vopnum komið inn í borgina frá Cu Chi göngunum og þau notuð til að ráðast á aðsetur Bandaríkjamanna í borginni. 

Við fórum niður í kjallara undir húsinu þar sem vopnin voru geymd. Ýmsar aðferðir voru síðan notaðar til að koma vopnunum áfram innan borgarinnar. Húseigandinn sótti um leyfi fyrir salerni til borgaryfirvalda, en byggði neðanjarðarbyrgið í staðinn.





Hersafnið í Saigon

Í safninu er að finna fjölda muna sem Bandaríkjamenn skildu eftir sig í kjölfar stríðsins. Einnig fjölmargar fréttaljósmyndir og umfjöllun um afleiðingar "Agent Orange" eiturefnahernaðarins.

Eftir að hafa farið um göngin og safnið þá verður að segjast að betri skilningur er á stöðu og seiglu Víetnama í gegnum þau fjölmörgu stríð sem þeir hafa háð geng nýlenduherrum og innrásarherjum í gegnum tíðina. 

Það var í raun sorglegt að sjá afleiðingar og áhrif valdagræðginnar á íbúa þessa lands.



Pósthúsið og Notre Dam í Saigon

Mjög glæsilegt pósthús er að finna í borginni sem hannað var af sama arkitekt og teiknaði Effelturninn í París. Byggt undir aldamótin 1900. Mjög gaman er að skoða þessa byggingu sem hefur varðveist einkar vel. 


Hinum megin við götuna er síðan "Notre Dam" dómkirkja sem er nákvæmlega eins og sú eina sanna, en eitthvað minni í sniðum.


Við hliðina á pósthúsinu er göngugata þar sem umferð vélknúinna ökutækja er bönnuð. Gatan er mjög friðsæl með fjölda bókabúða og kaffihúsa á báðar hendur. Fór svo að karlinn keypti bók til handa frúnni um víetnamska matargerð, auðvitað.



Kvöldstund í Saigon

Við héldum út á götu og settumst með drykk í líflegri götu í miðborginni. Við áttum spjall við mann frá Malasíu sem vakti athygli okkar þegar hann söng hástöfum með tónlist á símanum sínum.

Kom í ljós að hér var um að ræða viðskiptamann sem flýgur einu sinni í mánuði til Saigon í viðskiptaerindum og hefur gert í 23 ár samfleytt. Hann talar 6 tungumál og var allur hinn hressasti.

Einnig áttu við spjall við Bandaríkjamann á næsta borði sem margoft hefur komið til landsins, enda giftur konu frá Víetnam.

Síðan héldum við eftir götum borgarinnar sem iðar af mannlífi á miðvikudagskvöldi.

















2 ummæli:

  1. Voðalega er gaman að ferðast svona með ykkur. Og ég hlakka til að fá að smakka víetnamaska matinn hennar Halldóru.

    SvaraEyða
  2. Já og það verður gaman að elda fyrir ykkur, þetta er svo falleg bók :)

    SvaraEyða

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...