29. mars
Við hófum daginn á því að missa af morgunmatnum, enda nokkuð þreytt eftir ferðalagið frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi.
Ferja beið okkar við höfnina á Tahiti sem fór með okkur á eyjuna okkar, Moorea, en ferðin tók um 30 mín.
Eyjan er mjög falleg, strandlón, há fjöll og skógargróðurinn nær upp á fjallstoppana. Ekta lítil hitabeltiseyja, staðsett í Suður-Kyrrahafi, innan um margar systureyjar.
Við skoðuðum nánasta umhverfið og röltum um svæðið og niður að almenningsströndinni sem er í ca. 2 km. fjarlægð frá húsinu okkar.
31. mars
Við ákváðum að fjárfesta í léttum "snorkl" græjum og strandhosum (ribb shoes) til að geta farið niður að strönd og svamlað aðeins um. Strandhosurnar eru nauðsynlegar hér þar sem mikið af kóral og oddkvössum klöppum er að finna á ströndunum.
Síðan var ákveðið að panta bátsferð í snorkl og grillveislu sem farin yrði 1. apríl. Strandhosurnar fá að fara með.
1. apríl
Við héldum af stað til hafnarinnar þar sem báturinn beið okkar og óhætt er að segja að ferðin hafi komið okkur skemmtilega á óvart. Hákarlar, skötur, alls kyns fiskar auðvitað og skjaldbökur.
Við héldum í bandspotta sem hékk aftur úr hraðbátnum og síðan var sett af stað og við lónuðum yfir botninum og tókum myndir eins og við gátum. Síðan voru neðansjávarlistaverk skoðuð og svo hittum við skötur og hákarla áður en haldið var í hádegisverð á lítilli eyju þar sem boðið var upp á ferskt salat, grillmat og fleira góðgæti.
Frábær ferð! Myndir og myndbönd segja meira en hægt er að lýsa með orðum og það verður að bíða betri tíma.
2. apríl
Leigðum okkur bíl í dag og skoðuðum eyjuna svolítið. Moorea er bara með einn aðalveg, umhverfis eyjuna, enda er hún í raun nokkur fjöll og hæðir. Hringvegurinn er aðeins rúmlega 60 km. og því engin þörf á fjallvegum! Hægt er að aka upp að nokkrum útsýnisstöðum og sjá yfir strandlónin og fjöllin í kring.
Við komumst að því í dag, sunnudag, að flest allt er lokað, líka matvörurverslanir. Kannski að við Íslendingar ættum að skoða það að nýju. Það eru líka dæmi um að veitingastaðir séu lokaðir á sunnudagskvöldum og mánudögum til að tryggja að starfsfólkið fái leyfi. Gengi það upp á Íslandi? Þið getið eflaust svarað því sjálf :-)3. apríl
Takk fyrir uppdeitið ♥️. Haldið áfram að njóta og gleðilega hátíð 🐣
SvaraEyða