föstudagur, 7. apríl 2023

MB23 - 16. kafli - Moorea

29. mars

Við hófum daginn á því að missa af morgunmatnum, enda nokkuð þreytt eftir ferðalagið frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi.

Ferja beið okkar við höfnina á Tahiti sem fór með okkur á eyjuna okkar, Moorea, en ferðin tók um 30 mín.

Eyjan er mjög falleg, strandlón, há fjöll og skógargróðurinn nær upp á fjallstoppana. Ekta lítil hitabeltiseyja, staðsett í Suður-Kyrrahafi, innan um margar systureyjar. 

Við skoðuðum nánasta umhverfið og röltum um svæðið og niður að almenningsströndinni sem er í ca. 2 km. fjarlægð frá húsinu okkar.

31. mars

Við ákváðum að fjárfesta í léttum "snorkl" græjum og strandhosum (ribb shoes) til að geta farið niður að strönd og svamlað aðeins um. Strandhosurnar eru nauðsynlegar hér þar sem mikið af kóral og oddkvössum klöppum er að finna á ströndunum.

Síðan var ákveðið að panta bátsferð í snorkl og grillveislu sem farin yrði 1. apríl. Strandhosurnar fá að fara með.

1. apríl

Við héldum af stað til hafnarinnar þar sem báturinn beið okkar og óhætt er að segja að ferðin hafi komið okkur skemmtilega á óvart. Hákarlar, skötur, alls kyns fiskar auðvitað og skjaldbökur.

Við héldum í bandspotta sem hékk aftur úr hraðbátnum og síðan var sett af stað og við lónuðum yfir botninum og tókum myndir eins og við gátum. Síðan voru neðansjávarlistaverk skoðuð og svo hittum við skötur og hákarla áður en haldið var í hádegisverð á lítilli eyju þar sem boðið var upp á ferskt salat, grillmat og fleira góðgæti.

Frábær ferð! Myndir og myndbönd segja meira en hægt er að lýsa með orðum og það verður að bíða betri tíma.

2. apríl

Leigðum okkur bíl í dag og skoðuðum eyjuna svolítið. Moorea er bara með einn aðalveg, umhverfis eyjuna, enda er hún í raun nokkur fjöll og hæðir. Hringvegurinn er aðeins rúmlega 60 km. og því engin þörf á fjallvegum! Hægt er að aka upp að nokkrum útsýnisstöðum og sjá yfir strandlónin og fjöllin í kring.

Við komumst að því í dag, sunnudag, að flest allt er lokað, líka matvörurverslanir. Kannski að við Íslendingar ættum að skoða það að nýju. Það eru líka dæmi um að veitingastaðir séu lokaðir á sunnudagskvöldum og mánudögum til að tryggja að starfsfólkið fái leyfi. Gengi það upp á Íslandi? Þið getið eflaust svarað því sjálf :-)

3. apríl

Það tók nú ekki langan tíma að aka hringveginn sem er aðeins rúmir 60 km. að lengd. En hér er hámarkshraðinn 60 km og á köflum 40 og 30 km. Ástæðan er sú að margar krappar beygjur er á þessum vegi og svo er hann tvístefnuvegur, en þokkalega breiður. Hjólreiðafólk notar svo sérstakar akreinar utan með vegunum.

Við stoppuðum við baðströnd ekki langt frá smáhýsinu okkar og eyddum deginum þar.

HH hefur síðastliðna tvo daga tekið hlátursköst af verstu/bestu gerð og er ULE aðalhlátursefnið eins og svo oft áður, köstin eru ofsafengin og tárin spýtast út úr augnkrókum hennar og hún á erfitt með að tjá sig. Þið spyrjið hana bara út í þetta þegar þið hittið hana.




4. til 7. apríl

Höfum tekið því rólega síðustu daga, farið um eyjuna og skoðað hvað hún hefur upp á að bjóða. Það er ljóst að eyjaskeggjar eru ennþá ekki komnir með allan rekstur á fullt eftir heimsfaraldurinn. Margir staðir ennþá lokaðir.

Við heimsóttum fyrirtæki hér á eyjunni sem framleiðir ávaxtasafa af miklum móð, bæði áfenga og óáfenga. Aðalhráefnið er ananas, en líka mangó og fleiri tegundir. Við gengum um verksmiðjuna og sáum hvernig framleiðsluferinu er háttað og lukum heimsókninni í lítilli búð sem býður upp á smakk og allskonar dótarí.



Smávægileg magakveisa heimsótti okkur, en ekkert verulegt. Við vorum einmitt nýbúin að tala um það hve vel við höfum sloppið hingað til, en það var greinilega til að kalla á þetta....

Förum í dag yfir á Tahiti og síðan í næturflug á morgun, en hvert? Aðeins norðar að minnsta kosti.


1 ummæli:

  1. Takk fyrir uppdeitið ♥️. Haldið áfram að njóta og gleðilega hátíð 🐣

    SvaraEyða

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...