föstudagur, 28. apríl 2023

MB23 - 22. kafli - Las Vegas

26. - 28. apríl

Boise - Las Vegas

Flugið gekk mjög vel, stutt og þægilegt. Þegar við komum á hótelið var biðröð eftir innritun á herbergin. Svo fór að við biðum í 1,5 klst. eftir að geta innritað okkur og fengið lyklakortin afhent. Flugið okkar tók skemmri tíma en það! Um 30 póstar voru fyrir innritun, en aðeins 2 starfsmenn voru við vinnu og því gekk þetta ansi rólega.

Hótelið var vægast sagt langt frá því að vera gott. Okkur tókst að villast hressilega innandyra og geri aðrir betur. Lyfturnar gengu upp á 2. og 3. hæð og svo 15. til 30 hæð, en hvað varð um hæðirnar þar á milli, vitum við ekki.

Spilavítið á jarðhæðinni var eitt stórt reykingarherbergi þar sem óskaplega dapurt fólk sat við kassana og tapaði greinilega hressilega við iðjuna. "What spends in Vegas, stays in Vegas" ætti slagorðið að vera.

Annars voru við ekki komin til eyðumerkurborgarinnar til að upplifa firringuna á hótelunum, heldur að skoða tvo áfangastaði í nágrenni borgarinnar.




Hoover Dam

Við héldum af stað, snemma morguns, með hópi fólks til að skoða Hoover Dam mannvirkið og síðan áfram til Grand Canyon.

Stíflan var byggð á árunum 1931 til 1936 og hefur að geyma 17 túrbínur sem framleiða rafmagn sem nægir um 1 milljón heimila. Hún heitir eftir Franklin D. Roosenvelt, þáverandi forseta landsins, en hét áður Boulder Dam.

Vatnið kemur úr farvegi Colorado árinnar sem rennur í uppstöðulón stíflunnar. Virkjunin er staðsett í Svartagili (Black Canyon) og stendur á fylkismörkum Nevada og Arizona. Hæð stíflunnar er um 220 metrar og telst ennþá vera ein af stærri vatnsaflsvirkjunum heimsins.

Bygging stíflunnar hófst þegar kreppan mikla stóð yfir og var mikil lyftistöng fyrir svæðið. Bærinn Boulder City var byggður á sama tíma fyrir þá sem unnu við uppbygginguna.

Raforkan er ekki seld til Las Vegas eins og flestir halda eflaust, orkan er einkum seld til Phonix og Los Angeles.

Mjög hefur lækkað í lóninu og nú eru 15 túrbínur af 17 í notkun þar sem rennslið í Colarado ánni hefur minnkað verulega. Vatnshæð í lóninu hefur lækkað um 30% frá því sem áður var og sést það vel á kalkútfellingunum ofan við núverandi vatnsyfirborð.

Mjög góð aðstaða er til að nálgast gott útsýni að virkjuninni. Við gengum upp að brúnni sem stendur nálægt virkjuninni, inn á göngubrú sem er utan á brúnni og virtum mannvirkið fyrir okkur.

Grand Canyon

Eftir ekta amerískan morgunmat var haldið til Grand Canyon og tók ferðin rúma 2 tíma. Á leiðinni bar ýmislegt fyrir sjónir í eyðimörkinni, t.d. Joshua skógur og svæði sem telst vera einskismannsland, en þar býr fólk sem flest hefur flúið réttvísina og hýrist í lélegu húsnæði með engu rennandi vatni.


Mikljugjúfur eru auðvitað mjög tilkomumikil og skemmtileg að heimsækja. Töluvert var af öðrum gestum, en ekkert meira en t.d. við Gullfoss og Geysi á venjulegum degi. Öll aðstaða er góð, en mikið lagt upp úr að allir séu þar á eigin ábyrgð!

Mikið er af hröfnum á svæðinu sem eru orðnir ansi leiknir við að snappa sér í bita af gestum sem ekki gæta matar síns.

Fyrst var haldið til Eagle Point sem er mjög helgur staður frumbyggja af Hualapai indjána ættbálknum. Staðurinn degur nafn sitt af klettalögun sem líkist mjög erni með útbreidda vængi.

Á staðnum er líka að finna húsagerðir sem frumbyggjarnir notuðu í eyðimörkinni, mest úr trjábolum og leir.

Loks var haldið að útsýnisstaðnu, Guano Point nesinu, þar sem mjög gott útsýni er um svæðið og yfir ánna, Colarado river, sem rennur um gilin.

Fallegar klettamyndir og litatónar fanga athyglina og auðvitað hæðin, en 670 metrar eru frá útsýnisstaðnum og niður í ánna.

Árið 1957 var byggður drifbúnaður fyrir kláf á brúninni sem notaður var til að komast yfir ánna. Lengd vírsins var 2.300 metrar. En því miður fór það svo að flugvél frá bandaríska hernum flaug á vírinn og eyðilagði þar með samgöngutæki námuverkamannanna. Náman lagðist því af.

Félagið sem átti kláfinn fór í mál og fékk skaðabætur sem námu mun hærri upphæð en starfsemin skapaði. Mannvirkið hefur staðið óhreyft síðan.

Að lokinni heimsókninni í gjúlfrin var haldið aftur af stað til Las Vegas. Þegar rútan hafði ekið í um 30 mínútur, sprakk hjólbarði að aftan og bílstjórinn lagði út í kant. Hvað nú?

Krullhærði strákurinn, farastjórinn, bað alla um að slaka á, þó við værum stödd út í miðri eyðimörkinni í Arizona.

Hann tók eftir að í nágrenninu var býli sem líka væri með hinum fínasta bar. Hann tók til fótanna og kannaði málið. Eftir nokkra stund snéri hann til baka og spurði hvort einhver vildi ganga að býlinu og skella sér á barinn á meðan beðið væri annarrar rútu. Íslendingarnir stóðu fyrstir upp og skokkuðu niður eftir veginum, yfir ristarhlið og í átt að bænum.

"Saloon" og eitthvað sem líktist setti úr vestramynd tók á móti okkur, hestvagnar, hús og forn landbúnaðartæki. Innandyra á barnum tók "Idoho Dan" á móti okkur og hvatti okkur óspart að kíkja á barinn. "Consider it done!" sögðum við og verzsluðum okkur mjöð eða tvo.


"Idoho Dan" sagði okkur frá sjálfum sér auk þess hann lék nokkra kántrý slagara á kassagítarinn.

Tíminn leið og um 3 klukkustundum síðar kom önnur rúta frá borginni til að sækja hópinn. Áður en rútan renndi í hlað tókum við tal við bílstjórann um "dekkjasprungumálið" og spurðum hvort ekkert varadekk væri í rútunni.

"Jú, ég er með allan útbúnað til að skipta um dekk og get það auðveldlega". En hvað er þá málið?, spurðum við.

"Það þarf víst vottaðan og réttan bifvélavirkja til að skipta um dekkið á rútunni, sagði hann hneykslaður. Tryggingamál, sjáðu til". Það skodna við þetta var að í hópnum okkar var einmitt bifvélavirki sem bauðst til að aðstoða bílstjórann við dekkjaskiptin, en það var víst ekki nóg og því fór biðin upp í 3 klst. í stað ca. 20 mín.

Við héldum aftur af stað í nýju rútunni og komum í borgina við sólsetur. Ljósadýrðin var hafin og við fórum í stutta göngu til að skoða ljósaperurnar við "The Strip". 


Í dag bíðum við eftir að vélin okkar farin í loftið, ca. 2 klst. á eftir áætlun, gaman gaman.


miðvikudagur, 26. apríl 2023

MB23 - 21. kafli - Boise Idaho

 22. - 26. apríl

Idaho - kartöfluríkið mikla

Flugið frá San Fransico gekk vel í litlu flugvélinni hjá Alaska Airlines. Þetta var stutt flug, aðeins rúm klukkustund. Við flugum yfir nokkra fjallgarða þar sem töluvert var  af snjó og eflaust einhverjir á skíðum.

Boise er höfuðstaður Idaho fylkis með um 250.000 íbúa í borginni sjálfri og rúmlega 700.000 manns á svæðinum þar í kring.

Idaho er sannarlega kartöfluríki USA þar sem það framleiðir 1/3 af heildarframleiðslunni sem telst vera rúmlega 6 milljónir tonna af kartöflum á 300.000 ekrum lands (120.000 hektarar). Uppskeran er þannig um 50 tonn á hvern hektara lands, til samanburðar er uppskeran um og yfir 20 tonn/hektara á Íslandi (lauslega athugað). Uppskeran er yfirleitt á tímabilinu ágúst - október og magnið ansi mikið.

Idaho sér nefnilega McDonalds fyrir allri kartöfluþörf þess stóra skyndibitafyrirtækis, svona til að tryggja líka einsleitnina.


En hvers vegna til Boise?

Það kann einhver að velta því fyrir sér, enda kannski ekki vinsæll áfangastaður Íslendinga á ferðalögum um USA. Ástæðan er sú að á Moorea í Frönsku Pólýníseu kynnumst við fjölskyldu frá Bosie sem einhvern veginn var á sömu bylgjulengd og við.

Við náðum mjög vel saman og spjölluðum mikið í grillveislunni á litlu sandeyjunni við Moorea þar sem skötur, fiskar og hákarlar lónuðu í sjónum fyrir utan.

Þau heita Corby og Heather og eiga þrjá stráka sem allir eru undir 10 ára aldri. Þau starfa sem fasteignasalar, en Heather skipti yfir í þann vettvang, eftir að hafa starfað sem kennari um langt skeið.

Við sögðum þeim af ferðalagi okkar og hvert förinni væri heitir eftir Hawaii, þ.e. til San Francisco. Eftir það værum við með nokkra daga sem ekki væri búið að plana mikið. Úr varð að þau buðu okkur gistingu í íbúðum sem þau eiga í Boise og þáðum við það með þökkum.

Þau sögðust lengi hafa ætlað til Íslands og ef til vill yrði þessi vinskapur til þess.

Við leigðum okkur bíl á flugvellinum og það er óhætt að segja að nokkurt ryð var sest á aksturskunnáttuna hjá okkur, eftir að hafa verið laus við aksturinn í margar vikur, en það kom fljótt. Að kaupa bensín var líka nýtt fyrir okkur, enda átt rafbíla í 5 ár.

Náttúrufegurð - Greenbelt og fjallendið

Boise stendur við fjalllendi og er mikið um þjóðgarða og aðra almenningsgarða á svæðinu. Við gengum fyrsta daginn um hið svo kallaða "Greenbelt" sem er mjög stórt svæði meðfram ánni sem rennur í gegnum borgina. Þar er hægt að ganga, hlaupa og hjóla um mjög langa stíga sem liggja um svæðið. 

Raunar var þetta svæði mýrlendi, en fyrir nokkrum árum var ráðist í mjög miklar framkvæmdir til að gera svæðið aðgengilegt og fallegt. Steyptir göngustígar, brýr, grjóthleðslur, aðstöðuhús og veitingastaðir prýða svæðið sem er einkar fallegt að sjá og fara um.


Við gengum líka um fjallendi (Camel´s back) um 7 km leið þar sem hægt var að sjá yfir borgina og fylgjast með dýralífinu á svæðinu. Þarna voru líka mjög stór íbúðarhús í hæðunum sem sjálfsagt kosta eitthvað meira en gengur og gerist annarsstaðar á svæðinu.



Svo var gengið um borgina og þannig urðu þetta 10 km í heildina.

Vínhéraðið við Boise - Sunny Valley

Fyrir utan borgina er töluvert um vínrækt og ekki þótti annað hægt en að frúin fengi bílstjóra sem gæti lóðsað hana um vínræktarhéruðin í smá smakk og með því.

Eftir að hafa rannsakað málið var ákveðið að skoða tvö fyrirtæki, Sawtooth og Hat Ranch. Þetta eru fjölskyldufyriræki sem ýmist framleiða vín úr eigin ræktun eða með því að fá hráefnið frá nálægum bændum.

Hjá Sawtooth hafði freyðivínið vinninginn og hjá Hat Ranch var það hvítvínið frá árinu 2021 sem raunar vann til ótal verðlauna. Idaho er greinilega að vaxa sem vínræktarríki.




Covid skilaði kannski einhverju nytsamlegu

Bosie er róleg borg. Þar er samfélagið öllu frjálslyndara en gengur og gerist í fylkinu almennt. Borgin er mjög snyrtileg og alla þjónustu að finna. Mjög stór "Gay bar" er við göngugötuna á 8. stræti og þar er greinilega mikið fjör á kvöldin, a.m.k var það svo þegar við gengum þar framhjá á sunnudagskvöldið.

Göngugatan er raunar tilkomin vegna lokana sem áttu sér stað í Covid faraldrinum. Borgaryfirvöld ákváðu að loka hluta 8. strætis til þess að gefa rekstraraðilum veitingahúsa tækifæri til að fá meira rými fyrir borð á útisvæði til að tryggja fjarlægð milli gesta. Eftir að faraldrinum lauk að mestu og tilslakanir tóku gildi var ákveðið að opna ekki götuna fyrir bílaumferð og hefur það fallið vel í kramið. Við fórum oft um þessa götu og óhætt er að segja að þarna er mikið og gott mannlíf sem blómstrar vel, laust við bílaumferð uppvið veitingastaði og verslanir.


Veðurfar

Á svæðinu ríkir eyðurmerkurloftslag, kalt yfir nóttina og svo hlýnar skart yfir daginn. Í morgun var hitinn um 4 gráður, en var kominn í 20 gráður eftir hádegið. Hér er farið að vora og greinilegt að gróðurinn er í spretthlaupi við að grænka og laufgast. Um næstu helgi, undir lok apríl, er spáð um 30 stiga hita yfir hádaginn.


Breaking Bosie - Freak Alley Gallery

Aaron Paul, annar aðalleikari þáttanna um efnafræðikennarann seinheppna Walter White, leikur Jesse Pinkman í þáttunum. Aaron Paul er frá Boise og þess má finna merki í þessu skemmtilega húsasundi.

Í húsasundinu sem nefnist "Freak Alley Gallery" er einstaklingum sem eru "Graffiti" listafólk boðið að sjá um að gera vegglistaverk. Sundið breytist reglulega þar sem myndirnar standa ekki mjög lengi, aðeins um nokkurra vikna skeið.

Þetta eru auðvitað allskonar listaverk úr ýmsum áttum, mjög skrautleg og vel gerð. Ekki er að sjá að aðrir finni þörf fyrir að eyðileggja listaverkin, heldur fá þau að standa óskemmd.





Nú sitjum við á flugvellinum og bíðum eftir 15. fluginu á ferðlagi okkar, smá seinkun. Förinni er heitið til Nevada og Arizona.




sunnudagur, 23. apríl 2023

MB23 - 20. kafli - San Francisco

20. - 22. apríl - San Francisco

Við komum til borgarinnar um kvöldið þann 20. apríl og héldum á hótelið í miðbænum, The Andrews Hotel sem er mjög gamalt hótel með sál. Þar innandyra er svo Fino veitingastaðurinn, frábær ítalskur staður.

Næsta dag ákváðum við að fara í skoðunarferð um borgina með honum Brian sem sjálfur hefur komið til 83 landa í heiminum, m.a. tvisvar til Íslands á Iceland Airwaves og síðan um sumarmál. Ísland er á topp 4 á listanum hjá kappanum yfir áhugaverðustu löndin.

Ferðin tók 4 klukkustundir og þar sem Brian var á ómerktum bíl gat hann komist um hverfi borgarinnar þar sem skipulagðar ferðir með ferðamenn eru bannaðar.

San Francisco er um 49 mílur að flatarmáli, 7x7 mílur. Þaðan er t.d. nöfn á íþróttafélögum borgarinnar komin.

Borgin er mjög falleg, fjölbreytt, frjálsleg og hæðótt. Við borgina er San Francisco flóinn með fjöldann allan af stórum brúm, þar er auðvitað Golden Gate þeirra þekktust, en alls ekki sú stærsta. Í siglingu sem við fórum í um kvöldið var m.a. siglt við Alcatraz eyju þar sem hið alræmda fangelsi er að finna.



Brýrnar

Stærsta brúin sem er á 2 hæðum flytur um 500.000 faratæki á dag, á rólegum degi. Golden Gate ferjar um 200.000 farartæki á sama rólega deginum. Akreinum er breytt yfir daginn til að hámarka flutningsgetu brúnna. Það eru alls 8 brýr í flóanum (San Francisco Bay) og flestar stórar í sniðum.

Hverfin og söluborð fíkniefnanna

Borgin hefur að geyma fjölda hverfa, enda búa um 815.000 manns í henni. Þar eru t.d. Ítalska hverfið, Kína hverfið, Hippa hverfið, fjármálahverfið og  Tenderloin sem er talið það hættulegasta, en hótelið okkar er einmitt í því hverfi. Í Tenderloin eru um 5.000 heimilislausir einstaklingar og fjölgar stöðugt þar sem þessi þjóðfélagshópur leitar í þægilegt loftslag og umhverfi þar sem hægt er að komast betur af.




Í hverfinu er götuhorn þar sem sala fíkniefna fer fram fyrir opnum tjöldum. Söluborð er yfirleitt sett á gangstéttina og varningurinn lagður á borðið. Raunar er það svo að ferðamenn og aðrir geta verið öruggir á þessum stað þar sem dópsalarnir vita að ef eitthvað kemur fyrir ferðamenn á þessum stað, yrði það til þess að allt yrði hreinsað upp. Því gátum við farið þarna um án þess að vera ógnað á nokkurn hátt.

Í ítalska hverfinu er pizzustaðurinn Tony´s sem ku vera besti pizzustaðurinn í USA. Öllu hráefninu er flogið inn daglega frá Ítalíu og súrdeig brúkað. Við náðum því miður ekki að snæða þar, en eigum það inni.

Coit turninn

Á hæð einni í borginni stendur myndarlegur turn, Coit Tower, þar sem gott útsýni er yfir borgina. Turninn var reistur á árunum 1932 og 1933. Lillie Hitchcock Coit var merkileg stúlka sem hafði yndi af því að elta uppi bruna í borginni í kringum 1860 og fylgjast með og raunar taka þátt í slökkvistarfi. Það var hins vegar ekki í verkahring kvenna á þessum tíma og því dulbjó hún sig sem karlmann til þess að geta komist að. 

Þegar hún lést, árið 1929, kom í ljós að hún bjó yfir auðæfum og hafði lýst því yfir að nýta ætti þá til að fegra borgina. Því var ákveðið að reisa turninn í hennar minningu. Turninn minnir á vissan hátt á endastykki brunaslöngu (stút), en það er þó ekki vitað með vissu hvað form turnsins á að merkja.

Sjálfvirk farartæki um allt

Í borginni er margt sjálfvirkt að finna. Sjálfkeyrandi bílar, afgreiðsluvélmenni og svo framvegis. Það var að heyra á Uber og leigubílstjórum borgarinnar að þetta væri mjög þreytandi að hafa þessa bíla á götunum; "Nobody drives like that, damn it!", höfðu þeir á orði. 

Bílarnir hafa líka bilað með skondnum hætti, því eitt sinn söfnuðust þeir allir saman á einu og sama götuhorninu í borginni með tilheyrandi samgöngutruflunum!

Svo er fyrir dómstólum mál er varðar ölvunarakstur sjálfkeyrandi bifreiðar. Málavextir voru þeir að hinn ákærði leigði sér einn sjálfkeyrandi bíl eftir næturbrölt til að aka sér heim. Lögreglan stöðvaði bílinn og "gómaði" hinn ákærða blekkaðan í aftursæti bílsins og auðvitað engann í ökumannssætinu. Nú bíður fólk þess hvernig dæmt verður í málinu, í máli þar sem enginn lifandi vera ók bílnum.

Einn veitingaróbótinn, sem var að skultast með pöntun til viðskiptavinar, tók upp á því dag einn að keyra beint í gegnum morðvettvang og spillti þannig mikilvægum sönnunargögnum. Lögregluþjónarnir stóðu gapandi á vélmennið aka, mjög rólega, í gegnum alla borða og merkingar, beina leið með lágum vélrænum hljóðum, svona eitthvað í líkingu við R2-D2 úr Star Wars.

Það er ekki allt fengið með sjálfvirknivæðingunni, en hún kemur vissulega að gagni og ógagni reyndar líka.

Bankinn gamli

Elsti banki USA er í borginni og hét hann Bank of Italy og síðar Bank of America. Stofnaður árið 1904 og var þá stærsti banki í heimi. Stofnun hans átti sér stað í kringum gullæðið svonefnda sem í raun bjó borgina til. Bankabyggingin stóð af sér jarðskálftann árið 1906 og stórbrunann sem kom í kjölfarið.

Borgin lagðist í raun í rúst árið 1906 og þurfti því að endurbyggja hana að mestu leyti. Rústunum var ekið niður að sjó og standa fjölmargar byggingar og götur á þessum rústum.

Union Squire torgið

Union Squire er miðstöð lifandi lista og mannlífs, stendur við helstu merkjaverslanir borgarinnar og fjármálahverfið. Sund eitt í nágrenni við torgið var alræmt vændishverfi í gullæðinu þar sem um 1.000 konur voru við iðju sína og var hverfið svo slæmt að lögreglan á þeim tíma treysti sér ekki þangað nema með alvæpni. Í dag er þetta hátískuvörugata þar sem þú getur látið ræna þig á allt annan hátt.

Hér er líka heimili hins fræga San Francisco balletsins, sem Helgi Tómasson stjórnaði um langt skeið eða í alls 37 ár, allt til ársins 2022.



Ráðhús San Francisco

Ráðhúsið í borginni er einkar glæsileg bygging, skreytt alvöru gulli og tilkomumikil. Byggingin er raunar töluvert hærri en "The Capitol" byggingin í Washington og er mjög vinsæl til myndatöku ýmiskonar. Hún kom í stað eldri byggingar sem hrundi í skjálftanum og stórbrunanum árið 1906.


Af barna og hundahaldi

Hér í borg er mikið um hundahald, en mjög lítið um hundavagna eins og á Hawaii. Börn eru fremur sjaldséð og er það svo að um þrisvar sinnum fleiri hundar eru í San Francisco en börn. Skýringin er sú að hér starfar margt ungt fólk sem ekki hyggur á barneignir, en fer út að ganga með hundinn sinn í stað afleggjara í kerru. Borgin er sú borg USA þar sem fæst börn er að finna.

Það starf sem mest samkeppni ríkir um er að ganga með hunda fyrir eigendur þeirra. Það starf ku vera nokkuð vel borgað og nóg er af hundunum.

Mæringar milljarða og þeirra hýbýli

Það er ákaflega dýrt að kaupa eign hér í bæ. Hér búa flestir milljarðamæringar landsins og fasteignaverð er fáránlega hátt. Til að nefna dæmi þá kostar hús eitt, sem raunar gæti flokkast sem skúr, litlar 860.000 dollara eða um 120 milljónir íslenskra króna. 

Hér í borg býr margt af helstu leikurum landsins í eignum sem hlaupa á milljörðum króna, í húsum sem við köllum fín einbýlishús og alveg upp í einhverskonar hallarbyggingar.

Í dýrasta hverfinu sem kallað er Milljarðarmæringahverfið, býr sú fátækasta í húsi sem flokkast mun fremur sem höll. Sú heitir Danielle Steel og ritar glæpasögur í gríð og erg. Þið getið þá ímyndað ykkur hvernig hús þeirra sem eiga hærri bankainnstæður líta út.

Fasteignaverðið í þessu hverfi er frá 35 milljónum dollara (5 milljarðar) og upp úr.


Það er víst ekki hægt að komast af í borginni á almennum vinnumarkaði á launum undir 120 þúsund dollurum eða um 15 til 16 milljónir á ári. Matarverð er hins vegar ekki hátt, þetta er fyrst og fremst húsnæðiskostnaður sem er að sliga almenning hér.

Hvildarreitir manna og dýra

Borgin er lítil, eins og áður segir, aðeins 49 fermílur að stærð. Kirkjugarða er ekki að finna innan borgarmarkanna, aðeins einn garður með um 10 leiðum. Frá árinu 1906 hefur enginn verið jarðsettur innan borgarinnar, en þó er að finna kirkjugarð hermanna hér. En það er að finna hér nokkuð stóran reit fyrir gæludýr sem jarðsett eru þar. Reiturinn fékk að halda sér í skipulagi vegna brúarsmíðar og var undirstaða ein færð til á teikningum vegna þessa reits.

Nektin og fræga fólkið

Nekt er með öllu heimil hér í bæ. Það er alvanalegt að mæta fólki á adams og evuklæðum á rölti um göturnar og í görðum borgarinnar. "Summer of love" árið 1967 er nokkuð frægt þegar um 100.000 manns komu saman í Haight-Ashbury hverfinu og hippamenningin varð til. Í þessu hverfi bjó fjöldinn allur af þekktu tónlistarfólki þess tíma, t.d. The Grateful Dead, Janis Jopling, Jimi Hendrix og fleiri. Hverfið varð síðar staður óreglu, fíkniefnaneyslu og fleiri vandamála sem fylgja neyslu hugbreytandi efna. Í dag er mjög eftirsótt að búa í hverfinu, þrátt fyrir reyk hér og þar.

Búðir í hverfinu opna eitthvað seinna á daginn þar sem íbúarnir eru fremur seinir á fætur eftir þokumóðu gærdagsins, svo ekki sé meira sagt.

Hús Jimi Hendrix stendur í hverfinu, rautt að lit og gegnir í dag hlutverki hundasnyrtistofu, sem er einhvern veginn hálf skrýtið. Hendrix bjó um nokkurra ára skeið í húsinu seint á sjöunda áratugnum (1960-1970). Húsið er rautt að lit, sem er skýrskotun í texta tónlistarmannsins.


Grænu svæðin, strandirnar og auglýsingar, nei takk!

Fjölmargir garðar eru innan borgarinnar, sá stærsti er Golden Gate Park og nær yfir mjög stórt svæði í borginni. Þar er að finna fossa og læki, fjölbreytta jurtaflóru allsstaðar að úr heiminum, fótboltavöll, tónleikastaði, hollenskar vindmyllur og túlipanar og vísunda. Garðurinn er besti staðurinn til að týnast, ef einhver vill ekki láta finna sig í einhvern tíma. Hann er mun stærri en Central Park og er um 400 hektarar að stærð. Garðurinn er þjóðgarður og því ekki á forræði borgarinnar og þar af leiðandi í minni hættu á að verða breytt á skipulagi t.d. í byggingarland. Heimilislausum er bannað að vera í garðinum og mjög öruggt er að vera þar á öllum tímum sólarhringsins.

Auglýsingaskilti er bönnuð í borginni og því er það leiðindaljósadrasl ekki að trufla stemmninguna á götunum. Eina "billbordið" er risa LED skjár á efsta hluta nýjasta háhýsis borgarinnar, en þar eru sýnd listaverk, en ekki auglýsingar, á kvöldin.

Við borgina er mjög stór strönd, Ocean Beach, um 3 mílur að lengd og plássgóð. Það er hins vegar óráð að fara í sjóinn því þar er nóg af hákörlum og sterkum straumum í köldum sjónum.

Rasistinn og Sutro Baths

Í nágrenni við stöndina er staður sem hýsti eitt sinn glæsibyggingu (Sutro Baths) sem Svisslendingur nokkur byggði. Hann varð flugríkur í gullæðinu og byggði glæsihöll á klettunum og sundlaugarbyggingu með alls 6 sundlaugum. Byggingin brann og endurreisti sá svissnenski höllina, en hún brann á nýjan leik. Í dag er lítið eftir, aðeins grunnar og ein sundlaug.

Fyrsta dómsmálið vegna mismununar á grundvelli kynþáttar varð til á þessum stað, enda var eigandinn afar rasískur. Þeldökkum karlmanni var meinaður aðgangur að sundlaug einni á staðnum og fór hann í mál. Hann vann málið og voru honum dæmdar háar bætur, en fékk aðeins 100 dollara greidda, þannig að dómskerfið sveik hann víst líka.


Listir og tækni

San Francisco er miðstöð tæknigreina, bæði í líftækni og tölvutækni. Hér er að finna stórfyrirtæki með starfsemi á svæðinu, t.d. Tesla, Uber, Wells Fargo og fleiri risa. Fyrirtækin eru mörg hver staðsett á suðursvæði borgarinnar í hinum fræga Sílikondal (Silicon Valley).

Verksmiðjur Tesla eru staðsettar hér og notar fyrirtækið einu bryggjuna til útflutnings. Borgin varð nefnilega undir þegar kom að því að ákveða stórskipahöfn í flóanum. Oakland hentar mun betur þar sem aðdjúpt er þar, en dýpið við San Francisco er lítið.

Listir ýmiskonar eru mjög áberandi og þá líka á byggingum. Sem dæmi má nefna að listaverk eftir Banksy er að finna á amk tveimur byggingum og svo er líka mjög stór mynd af hinni hugrökku Gretu Thunberg á gafli byggingar í miðbæ borgarinnar.

Ekki má svo gleyma hinni frægu Lombard götu í "Rússnesku hæðunum" þar sem ekið er niður eftir mjórri götu með átta beygjum. Gatan þjónaði áður hestaumferð sem lykkjast niður hæðina. Mjög gaman er að keyra þarna niður.

Í borginni eru líka mjög brattar götur sem komið hafa við sögu í fjölmörgum kvikmyndum. Á einum stað sáum við þröppur í gangstéttinni, svo bratt er þangað upp!


















MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...