þriðjudagur, 9. maí 2023

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí

Las Vegas - Syracuse

Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöllum. 

Við komuna til Syracuse tóku Don og Dianne brosandi á móti okkur, hafa lítið breyst síðan við komum hingað síðast árið 2015.

Í apríl 1993, kom frúin hún Halldóra til þeirra sem au pair og sá um strákinn þeirra, hann Pete, þar til í lok janúar 1994. Því voru 30 ár liðin frá fyrsta fundi þeirra. Nokkuð sem óhætt væri að halda upp á!

Við ókum frá borginni til íverustaðarins við Tuscarora vatn í Erieville þar sem nýuppgert og stækkað íbúðarhús þeirra Don og Dianne er að finna. Mjög fallegt hús í alla staði og allt umhverfið mjög skemmtilegt, bátar og litlar bryggjur, hringinn í kringum vatnið.

Húsið er æskuheimili Don og er hann því kominn aftur á heimaslóðir, eftir rúmlega 40 ára fjarveru í hinum ýmsu borgum og bæjum í Bandaríkjunum.

Don er hættur störfum fyrir nokkrum árum, en hann vann aðallega við læknisfræðileg rannsóknarstörf þar sem áherslan var á virkni próteina í eyrum sem og taugalæknisfræði, en Don er menntaður í læknisfræði og verkfræði.

Dianne er einnig læknisfræðimenntuð og hefur alla tíð starfað sem réttarlæknir/réttameinafræðingur og vinnur enn 8 daga í mánuði, komin fast að áttræðu. Dianne er ennþá mjög áhugasöm um þetta sérstæða starf sem hún hefur með höndum. Margar sögur og furðustaðreyndir fengum við að heyra af þeim vettvangi.

Vatnið við heimili þeirra hjóna er raunar uppistöðulón sem búið var til seint á 19. öld, en fyrir þann tíma var þarna að finna mikið mýrlendi, eins og víðar á þessu svæði.

Það rigndi nokkuð þegar við komum og hafði rignt á þessu svæði undanfarnar vikur. Því var vatnsstaðan í vatninu há og mikið vatn í öllum skurðum. Það var heldur kalt, 2 til 8 gráður, en gott fyrir okkur að venjast aftur breyttu hitistigi.

Þau hjúin eru búin að fá sér tvo ferfætlinga, labrador systurnar Maggie og Morty, sem eru einkar fjörugar, enda ungar að árum.

Við fórum með þær í göngutúra flesta morgna og voru þær mjög ánægðar með gönguna, þrátt fyrir að mæta öðrum hundum á svæðinu með tilheyrandi átökum fyrir "gönguforeldrana".




Ernie og Dianne

Don fór með okkur til þeirra Ernie og Dianne sem búa skammt frá. Þar fengum við að skoða verkstæðið hjá Ernie sem er þúsundþjalasmiður. Hann er kominn á eftirlaun og ver tíma sínum gjarnan á verkstæðinu við handverksgerð og þá aðallega við að búa til hnífa sem eru mjög fallegir með flóknu munstri á hnífsblaðinu. 

Stálið er marghert og mikill tími fer í gerð hvers hnífar fyrir sig. Hnífarnir eru ekki til sölu, enda fara um 100 klst. í gerð hvers þeirra. Kona hans, Dianne, á víst nóg af hnífum í eldhúsinu og verður ekki uppiskroppa með þá við matargerðina.



Lake Placid - Adirondack fjallasvæðið

Þau hjúin höfðu pantað gistingu í fjallakofa norðarlega í fylkinu í nágrennið við bæinn Lake Placid sem er í um 4 klst akstursfjarlægð frá Erieville.

Það er mikill fjöldi stöðuvatna á þessu svæði og sýndist okkur að skortur hafi myndast á örnefnum þar sem einhver þeirra hétu 1. vatn, 2. vatn, 3. vatn, allt upp í 9. vatn. Sem betur fer er örnefnaskortur ekki nokkuð sem við þurfum að óttast á okkar ylhýra, við bara endurnýtum.

Lake Placid er í raun fjallabær þar sem mörg stöðuvötn er að finna og sömuleiðis sumarhús af ýmsum gerðum og stærðum. Á þessu svæði hafa verið haldnir tvennir vertrarólympuleikar, árið 1932 og 1980. Fjöldinn allur af mannvirkjum frá þessum leikum eru ennþá í notkun, t.d. skíðastökkpallar og sleðabrautir (bobslades). Fjöldi hótela og veitingastaða er þarna að finna og sjálft ólympíuþorpið.



Eftir rúmlega 4 tíma akstur komum við á svæðið og könnuðum hvar gistinguna væri að finna. Þeim Don og Dianne hafði verið sagt að allt væri uppbókað á hótelinu sjálfu (The Logde), en þegar við komum í skálann var engan starfsmann að finna og þar stóð að sá hinn sami væri væntanlegur um kl. 6.30 næsta morgun! Við ákváðum að fara inn í setustofuna þar sem á okkar vegi varð heldur einmannalegur eldri maður. Hans sagðist líklega vera eini gesturinn á hótelinu og að morgunmaturinn væri ekki fyrir félagslynt fólk. 

Skýringin var sú að ekki var allt uppbókað, bara undirmannað!

Við fundum svo lykil og upplýsingar um staðsetningu á húsinu sem við áttum bókað. Eftir nokkra leit fundum við húsið og komum okkur fyrir.

Þegar inn var komið var ljóst að engin rúmföt né handklæði var þar að finna. Nú voru góð ráð dýr, áttum við að "krassa" inn á herbergi í "Lodginu" eða hvað? Don og Dianne tóku sig til og "rændu" úr línsherberginu í "Lodginu" og fóru með yfir í húsið til okkar. Eftir komuna þangað sáu þau reyndar að við áttum að hafa þetta með okkur frá heiman, en hvernig getur einn maður vitað allt, sagði Don.

Mt. Jo

Næsta dag var haldið í fjallgöngu upp á lítið fjall, Mt. Jo. Við hjúin héldum upp á undan þeim eldri og gekk vel. Ákveðið var að fara bröttu leiðina upp og þá aflíðandi niður.

Mikil bleyta var eftir rigningar undanfarnar vikur, en okkur sóttist gangan vel. Fjallið er um 3.000 fet á hæð, en það er reyndar ekki rosa hátt í metrum, svo við skulum halda okkur við fetin. Fjöldinn allur af trjám hafði fallið á gönguleiðina eftir vetrarveðrin og því ærinn starfi fyrir höndum hjá skálavörðum svæðisins við að hreinsa gönguleiðir fyrir komandi sumar.




Við lukum göngunni á 1 klst. og 40 mín og biðum þeirra er hægar fóru yfir. Þau skiluðu sér loks í skála, 2 klst. og 15 mín á eftir okkur. 

Við héldum til Lake Placid og snæddum einkar góðan kvöldverð á ítölskum stað í boði þeirra hjóna.

Af bátastússi og grasslætti.

Don er mikill báta- og bryggjukall. Við húsið þeirra er lítil bryggja og aðstaða fyrir litla báta og kænur.

Bóndinn var ekki lengi að benda Don á þá áratuga löngu reynslu sem viðkomandi býr yfir á þessu sviði, allt frá Breiðafirði til uppsveita Árnessýslu. Því var ákveðið að "vatnssetja" hraðbátinn við fyrsta tækifæri. Áður en að því yrði varð Don að fá andrými til að græja allskonar og ýmislegt. Því fór svo að sá reyndi fékk kajak til að skvettast um uppistöðulónið  á meðan.

Don og bóndinn tóku til hendinni og komu lítilli lyftu í vatninu við bryggjuna sem þjóna ætti hraðbátnum og einnig tröppum við enda bryggjunnar. Sá íslenski hélt reyndar að jeppi þeirra hjóna ætti að ýta bátnum út í vatnið með hlunnförum, en það er greinilega ekki alþjóðleg aðferð!

Frúin fékk John Deere sláttuvél í hendurnar og gekk grasslátturinn vel, þó svo að sláttuvélin væri af eldri gerðinni. Slátturinn gekk vel og ljóst að reynslubankinn var til staðar.

Mótorinn á hraðbátnum, Yamaha árg. 1980, var skoðaður, en þeim íslenska fannst eitthvað ekki  í lagi

 



með þann japanska og taldi rétt að fara varlega í sakirnar næsta dag.
Eftir ekta BBQ á ameríska vísu var ákveðið að halda af stað á hraðbátnum góða, út á vatnið. Bóndanum íslenska fannst reykjarsvælan heldur mikil og bað ameríska bóndann um að draga úr ferðinni, en það var um seinann. Mótorinn ákvað að hætta allri þjónustu við bátsverja og drap á sér.


Aðeins ein lítil ár var um borð og vindur nokkur á vatninu. Úr varð að þau íslensku tóku að sér svokallaðan skiptiróður til að koma bátsverjum í land. Það tók tæpan hálftíma, en reddaðist á endanum.

Næstu nótt var haldið út á völl í Syracuse og þaðan flogið til Boston.

Boston og heim.

Boston er falleg borg og margt þar að finna. Google bíllinn (aka Hallóra H.) var ekki lengi að finna hvernig í deiliskipulaginu lá og var fljót að benda hingað og þangað, út og suður, niður að barnum góða, Cheers!!



Eftir að hafa ráfað um miðborg og hafnarsvæði borgarinnar, með tilheyrandi verslunarveseni, gengum um og yfir 10. km. báða dagana enda margt skemmtilegt að sjá, Boston iðaði af lífi og gaf okkur góða tilfinningu og nær í topp þrjá af borgunum sem við sóttum heim í þessari reisu.


 



Hlökkum til að koma heim, eftir rúmlega 3ja mánaða ferðalag.

Mikið var notalegt að koma heim, eftir 18 flug, 11 lönd, 15 stórborgir, 5 eyjar og svo allsskonar annað merkilegt, skemmtilegt og skrítið.


Hver vegur að heiman er vegurinn heim!















föstudagur, 28. apríl 2023

MB23 - 22. kafli - Las Vegas

26. - 28. apríl

Boise - Las Vegas

Flugið gekk mjög vel, stutt og þægilegt. Þegar við komum á hótelið var biðröð eftir innritun á herbergin. Svo fór að við biðum í 1,5 klst. eftir að geta innritað okkur og fengið lyklakortin afhent. Flugið okkar tók skemmri tíma en það! Um 30 póstar voru fyrir innritun, en aðeins 2 starfsmenn voru við vinnu og því gekk þetta ansi rólega.

Hótelið var vægast sagt langt frá því að vera gott. Okkur tókst að villast hressilega innandyra og geri aðrir betur. Lyfturnar gengu upp á 2. og 3. hæð og svo 15. til 30 hæð, en hvað varð um hæðirnar þar á milli, vitum við ekki.

Spilavítið á jarðhæðinni var eitt stórt reykingarherbergi þar sem óskaplega dapurt fólk sat við kassana og tapaði greinilega hressilega við iðjuna. "What spends in Vegas, stays in Vegas" ætti slagorðið að vera.

Annars voru við ekki komin til eyðumerkurborgarinnar til að upplifa firringuna á hótelunum, heldur að skoða tvo áfangastaði í nágrenni borgarinnar.




Hoover Dam

Við héldum af stað, snemma morguns, með hópi fólks til að skoða Hoover Dam mannvirkið og síðan áfram til Grand Canyon.

Stíflan var byggð á árunum 1931 til 1936 og hefur að geyma 17 túrbínur sem framleiða rafmagn sem nægir um 1 milljón heimila. Hún heitir eftir Franklin D. Roosenvelt, þáverandi forseta landsins, en hét áður Boulder Dam.

Vatnið kemur úr farvegi Colorado árinnar sem rennur í uppstöðulón stíflunnar. Virkjunin er staðsett í Svartagili (Black Canyon) og stendur á fylkismörkum Nevada og Arizona. Hæð stíflunnar er um 220 metrar og telst ennþá vera ein af stærri vatnsaflsvirkjunum heimsins.

Bygging stíflunnar hófst þegar kreppan mikla stóð yfir og var mikil lyftistöng fyrir svæðið. Bærinn Boulder City var byggður á sama tíma fyrir þá sem unnu við uppbygginguna.

Raforkan er ekki seld til Las Vegas eins og flestir halda eflaust, orkan er einkum seld til Phonix og Los Angeles.

Mjög hefur lækkað í lóninu og nú eru 15 túrbínur af 17 í notkun þar sem rennslið í Colarado ánni hefur minnkað verulega. Vatnshæð í lóninu hefur lækkað um 30% frá því sem áður var og sést það vel á kalkútfellingunum ofan við núverandi vatnsyfirborð.

Mjög góð aðstaða er til að nálgast gott útsýni að virkjuninni. Við gengum upp að brúnni sem stendur nálægt virkjuninni, inn á göngubrú sem er utan á brúnni og virtum mannvirkið fyrir okkur.

Grand Canyon

Eftir ekta amerískan morgunmat var haldið til Grand Canyon og tók ferðin rúma 2 tíma. Á leiðinni bar ýmislegt fyrir sjónir í eyðimörkinni, t.d. Joshua skógur og svæði sem telst vera einskismannsland, en þar býr fólk sem flest hefur flúið réttvísina og hýrist í lélegu húsnæði með engu rennandi vatni.


Mikljugjúfur eru auðvitað mjög tilkomumikil og skemmtileg að heimsækja. Töluvert var af öðrum gestum, en ekkert meira en t.d. við Gullfoss og Geysi á venjulegum degi. Öll aðstaða er góð, en mikið lagt upp úr að allir séu þar á eigin ábyrgð!

Mikið er af hröfnum á svæðinu sem eru orðnir ansi leiknir við að snappa sér í bita af gestum sem ekki gæta matar síns.

Fyrst var haldið til Eagle Point sem er mjög helgur staður frumbyggja af Hualapai indjána ættbálknum. Staðurinn degur nafn sitt af klettalögun sem líkist mjög erni með útbreidda vængi.

Á staðnum er líka að finna húsagerðir sem frumbyggjarnir notuðu í eyðimörkinni, mest úr trjábolum og leir.

Loks var haldið að útsýnisstaðnu, Guano Point nesinu, þar sem mjög gott útsýni er um svæðið og yfir ánna, Colarado river, sem rennur um gilin.

Fallegar klettamyndir og litatónar fanga athyglina og auðvitað hæðin, en 670 metrar eru frá útsýnisstaðnum og niður í ánna.

Árið 1957 var byggður drifbúnaður fyrir kláf á brúninni sem notaður var til að komast yfir ánna. Lengd vírsins var 2.300 metrar. En því miður fór það svo að flugvél frá bandaríska hernum flaug á vírinn og eyðilagði þar með samgöngutæki námuverkamannanna. Náman lagðist því af.

Félagið sem átti kláfinn fór í mál og fékk skaðabætur sem námu mun hærri upphæð en starfsemin skapaði. Mannvirkið hefur staðið óhreyft síðan.

Að lokinni heimsókninni í gjúlfrin var haldið aftur af stað til Las Vegas. Þegar rútan hafði ekið í um 30 mínútur, sprakk hjólbarði að aftan og bílstjórinn lagði út í kant. Hvað nú?

Krullhærði strákurinn, farastjórinn, bað alla um að slaka á, þó við værum stödd út í miðri eyðimörkinni í Arizona.

Hann tók eftir að í nágrenninu var býli sem líka væri með hinum fínasta bar. Hann tók til fótanna og kannaði málið. Eftir nokkra stund snéri hann til baka og spurði hvort einhver vildi ganga að býlinu og skella sér á barinn á meðan beðið væri annarrar rútu. Íslendingarnir stóðu fyrstir upp og skokkuðu niður eftir veginum, yfir ristarhlið og í átt að bænum.

"Saloon" og eitthvað sem líktist setti úr vestramynd tók á móti okkur, hestvagnar, hús og forn landbúnaðartæki. Innandyra á barnum tók "Idoho Dan" á móti okkur og hvatti okkur óspart að kíkja á barinn. "Consider it done!" sögðum við og verzsluðum okkur mjöð eða tvo.


"Idoho Dan" sagði okkur frá sjálfum sér auk þess hann lék nokkra kántrý slagara á kassagítarinn.

Tíminn leið og um 3 klukkustundum síðar kom önnur rúta frá borginni til að sækja hópinn. Áður en rútan renndi í hlað tókum við tal við bílstjórann um "dekkjasprungumálið" og spurðum hvort ekkert varadekk væri í rútunni.

"Jú, ég er með allan útbúnað til að skipta um dekk og get það auðveldlega". En hvað er þá málið?, spurðum við.

"Það þarf víst vottaðan og réttan bifvélavirkja til að skipta um dekkið á rútunni, sagði hann hneykslaður. Tryggingamál, sjáðu til". Það skodna við þetta var að í hópnum okkar var einmitt bifvélavirki sem bauðst til að aðstoða bílstjórann við dekkjaskiptin, en það var víst ekki nóg og því fór biðin upp í 3 klst. í stað ca. 20 mín.

Við héldum aftur af stað í nýju rútunni og komum í borgina við sólsetur. Ljósadýrðin var hafin og við fórum í stutta göngu til að skoða ljósaperurnar við "The Strip". 


Í dag bíðum við eftir að vélin okkar farin í loftið, ca. 2 klst. á eftir áætlun, gaman gaman.


miðvikudagur, 26. apríl 2023

MB23 - 21. kafli - Boise Idaho

 22. - 26. apríl

Idaho - kartöfluríkið mikla

Flugið frá San Fransico gekk vel í litlu flugvélinni hjá Alaska Airlines. Þetta var stutt flug, aðeins rúm klukkustund. Við flugum yfir nokkra fjallgarða þar sem töluvert var  af snjó og eflaust einhverjir á skíðum.

Boise er höfuðstaður Idaho fylkis með um 250.000 íbúa í borginni sjálfri og rúmlega 700.000 manns á svæðinum þar í kring.

Idaho er sannarlega kartöfluríki USA þar sem það framleiðir 1/3 af heildarframleiðslunni sem telst vera rúmlega 6 milljónir tonna af kartöflum á 300.000 ekrum lands (120.000 hektarar). Uppskeran er þannig um 50 tonn á hvern hektara lands, til samanburðar er uppskeran um og yfir 20 tonn/hektara á Íslandi (lauslega athugað). Uppskeran er yfirleitt á tímabilinu ágúst - október og magnið ansi mikið.

Idaho sér nefnilega McDonalds fyrir allri kartöfluþörf þess stóra skyndibitafyrirtækis, svona til að tryggja líka einsleitnina.


En hvers vegna til Boise?

Það kann einhver að velta því fyrir sér, enda kannski ekki vinsæll áfangastaður Íslendinga á ferðalögum um USA. Ástæðan er sú að á Moorea í Frönsku Pólýníseu kynnumst við fjölskyldu frá Bosie sem einhvern veginn var á sömu bylgjulengd og við.

Við náðum mjög vel saman og spjölluðum mikið í grillveislunni á litlu sandeyjunni við Moorea þar sem skötur, fiskar og hákarlar lónuðu í sjónum fyrir utan.

Þau heita Corby og Heather og eiga þrjá stráka sem allir eru undir 10 ára aldri. Þau starfa sem fasteignasalar, en Heather skipti yfir í þann vettvang, eftir að hafa starfað sem kennari um langt skeið.

Við sögðum þeim af ferðalagi okkar og hvert förinni væri heitir eftir Hawaii, þ.e. til San Francisco. Eftir það værum við með nokkra daga sem ekki væri búið að plana mikið. Úr varð að þau buðu okkur gistingu í íbúðum sem þau eiga í Boise og þáðum við það með þökkum.

Þau sögðust lengi hafa ætlað til Íslands og ef til vill yrði þessi vinskapur til þess.

Við leigðum okkur bíl á flugvellinum og það er óhætt að segja að nokkurt ryð var sest á aksturskunnáttuna hjá okkur, eftir að hafa verið laus við aksturinn í margar vikur, en það kom fljótt. Að kaupa bensín var líka nýtt fyrir okkur, enda átt rafbíla í 5 ár.

Náttúrufegurð - Greenbelt og fjallendið

Boise stendur við fjalllendi og er mikið um þjóðgarða og aðra almenningsgarða á svæðinu. Við gengum fyrsta daginn um hið svo kallaða "Greenbelt" sem er mjög stórt svæði meðfram ánni sem rennur í gegnum borgina. Þar er hægt að ganga, hlaupa og hjóla um mjög langa stíga sem liggja um svæðið. 

Raunar var þetta svæði mýrlendi, en fyrir nokkrum árum var ráðist í mjög miklar framkvæmdir til að gera svæðið aðgengilegt og fallegt. Steyptir göngustígar, brýr, grjóthleðslur, aðstöðuhús og veitingastaðir prýða svæðið sem er einkar fallegt að sjá og fara um.


Við gengum líka um fjallendi (Camel´s back) um 7 km leið þar sem hægt var að sjá yfir borgina og fylgjast með dýralífinu á svæðinu. Þarna voru líka mjög stór íbúðarhús í hæðunum sem sjálfsagt kosta eitthvað meira en gengur og gerist annarsstaðar á svæðinu.



Svo var gengið um borgina og þannig urðu þetta 10 km í heildina.

Vínhéraðið við Boise - Sunny Valley

Fyrir utan borgina er töluvert um vínrækt og ekki þótti annað hægt en að frúin fengi bílstjóra sem gæti lóðsað hana um vínræktarhéruðin í smá smakk og með því.

Eftir að hafa rannsakað málið var ákveðið að skoða tvö fyrirtæki, Sawtooth og Hat Ranch. Þetta eru fjölskyldufyriræki sem ýmist framleiða vín úr eigin ræktun eða með því að fá hráefnið frá nálægum bændum.

Hjá Sawtooth hafði freyðivínið vinninginn og hjá Hat Ranch var það hvítvínið frá árinu 2021 sem raunar vann til ótal verðlauna. Idaho er greinilega að vaxa sem vínræktarríki.




Covid skilaði kannski einhverju nytsamlegu

Bosie er róleg borg. Þar er samfélagið öllu frjálslyndara en gengur og gerist í fylkinu almennt. Borgin er mjög snyrtileg og alla þjónustu að finna. Mjög stór "Gay bar" er við göngugötuna á 8. stræti og þar er greinilega mikið fjör á kvöldin, a.m.k var það svo þegar við gengum þar framhjá á sunnudagskvöldið.

Göngugatan er raunar tilkomin vegna lokana sem áttu sér stað í Covid faraldrinum. Borgaryfirvöld ákváðu að loka hluta 8. strætis til þess að gefa rekstraraðilum veitingahúsa tækifæri til að fá meira rými fyrir borð á útisvæði til að tryggja fjarlægð milli gesta. Eftir að faraldrinum lauk að mestu og tilslakanir tóku gildi var ákveðið að opna ekki götuna fyrir bílaumferð og hefur það fallið vel í kramið. Við fórum oft um þessa götu og óhætt er að segja að þarna er mikið og gott mannlíf sem blómstrar vel, laust við bílaumferð uppvið veitingastaði og verslanir.


Veðurfar

Á svæðinu ríkir eyðurmerkurloftslag, kalt yfir nóttina og svo hlýnar skart yfir daginn. Í morgun var hitinn um 4 gráður, en var kominn í 20 gráður eftir hádegið. Hér er farið að vora og greinilegt að gróðurinn er í spretthlaupi við að grænka og laufgast. Um næstu helgi, undir lok apríl, er spáð um 30 stiga hita yfir hádaginn.


Breaking Bosie - Freak Alley Gallery

Aaron Paul, annar aðalleikari þáttanna um efnafræðikennarann seinheppna Walter White, leikur Jesse Pinkman í þáttunum. Aaron Paul er frá Boise og þess má finna merki í þessu skemmtilega húsasundi.

Í húsasundinu sem nefnist "Freak Alley Gallery" er einstaklingum sem eru "Graffiti" listafólk boðið að sjá um að gera vegglistaverk. Sundið breytist reglulega þar sem myndirnar standa ekki mjög lengi, aðeins um nokkurra vikna skeið.

Þetta eru auðvitað allskonar listaverk úr ýmsum áttum, mjög skrautleg og vel gerð. Ekki er að sjá að aðrir finni þörf fyrir að eyðileggja listaverkin, heldur fá þau að standa óskemmd.





Nú sitjum við á flugvellinum og bíðum eftir 15. fluginu á ferðlagi okkar, smá seinkun. Förinni er heitið til Nevada og Arizona.




MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...