fimmtudagur, 30. mars 2023

MB23 - 15. kafli - Sydney til Papeete - Af visa veseni og uppfærslu

Visa transit vesen

Við gistum í Sydney á hostelinu "The Pod" sem er í miðbænum, ekki langt frá höfninni. Þetta er kojugisting þar sem hvert herbergi rúmar 8 manns. Kojurnar eru að vísu lokaðar, en ekki er annað hægt en að nýta sér blessuðu eyrnatappana ef vel á að vera. Ekki fyrir miðaldra fólk......

En ULE náði sér í eitthvert kvef á leið sinni um Asíu og það var erfitt fyrir hann að hafa hljótt, hóstandi, hnerrandi og snýtandi. Lítið var um svefn hjá karli og eflaust öðrum líka, nema ef tapparnir voru góðir.

Um morguninn, 28. mars, fór ULE að velta fyrir sér hvort ekki þyrfti að sækja um eitthvað hjá Nýsjálendingum, þeir væru annálaðir fyrir að taka málin föstum tökum eins og mátti sjá í covidinu.

"Visa transit", sagði ULE við HH. "Hvað þá?", sagði HH. "Við verðum að sækja um leyfi til að sitja í flughöfninni, án þess að fara inn í landið, til að bíða eftir næsta flugi"!

Allt var sett í gang og að lokum fundum við rétta appið til að sækja um og greiða smáræði fyrir, auðvitað. Einnig var hægt að sækja um á vefsíðu þar sem lofað var afgreiðslu samdægurs fyrir "aðeins", 330USD, eða um 46.000 kr., algjört gjafverð.

Við tókum þá ákvörðun að nota appið, við hefðum þó ca. 20 klst. áður en flugið átti að fara að stað, það hlyti að duga. 

ULE fékk samþykki nær samstundis, en HH var á bið (Pending). Tíminn leið og ekkert breytist hjá HH. Við sváfum lítið, enda fékk HH póst um að reyna alls ekki að ferðast til Nýja-Sjálands á meðan leyfið lægi ekki fyrir.

Um morguninn, kl. 5.30, héldum við út á völl, þrátt fyrir að HH væri ekki komin með leyfið. Við gerðum ráð fyrir að vera stoppuð í innrituninni og HH þyrfti að finna nýtt flug einhvern tíma síðar. ULE færi þá í flugið einn og HH kæmi þá bara síðar, eftir að fara aftur niður í bæ og í allar rándýru merkjabúðirnar!

Við gátum ekki skráð okkur inn í gegnum sjálfsafgreiðsluna á vellinum og héldum því að innritunarborðinu. Við tók erfið bið, því eitthvað virkaði ekki í sambandi við vegabréfið hjá HH. Konan, sem var afskaplega viðkunnaleg, fór afsíðis með vegabréfið. Úff, hvað gerum við nú?, hugsuðum við.

Hún kom aftur, löngu síðar að okkur fannst, og byrjaði aftur að bisast við tölvuna. HH var ennþá á "Pending" í árituninni og ákvað að skýra frá málinu skjálfandi röddu og fölgræn í framan. 

Konan leit upp og sagði: "Er visað ykkar samþykkt eða er það á Pending (í ferli)"?. HH sagði döpur að það væri ósamþykkt (Pending). THAT´S FINE! sagði hún.

HA, er það í lagi? sagði HH og seig niður um leið og viðkunnalega konan brosti fallega til hennar og staðfesti að nóg væri að sækja um og greiða, enginn væri að fara að stoppa okkur.

Púff, þarna munaði mjóu eða ekki! Svefnlaus nóttin horfði aftan í hnakkann á okkur, með kvikindislegu augnaráði. Þegar inn í flugstöðina var komið, kom uppfærsla frá yfirvöldum; HH fékk leyfið, eftir að hafa skráð sig inn, mjög skondið.

Við höfum komist að því að kröfur um visa, hvort sem er visa inn í landið eða bara "sófa visa" til að bíða eftir næsta flugi, en ákaflega misjafnar á milli landa, sum lönd gera enga kröfu á meðan önnur vilja endalausar umsóknir. Sumir með app aðrir ekki. Allt frekar ruglingslegt.

Flughöfnin í Sydney var mjög ólík öllum öðrum á okkar leið. Vel hönnuð, hljóðvist góð og allt rólegt í yfirbragði. Enginn hamrandi á tilkynningabjölluna (DING - DING - DING í hækkandi tónstiga) og svo últraskær rödd: (ALL PASSENGER........) og svo aftur (DING - DING - DING í lækkandi tónstiga). 

Nei, engin bjalla, bara svona ómþýð rödd sem talaði mjög yfirvegað og sagði t.d. í lokaútkallstilkynningunni:

"Jón Jónsson, taktu eftir. Flugvélin þín er tilbúin til brottfarar og allir hinir farþegarnir eru komnir í vélina og eru að bíða eftir þér". 

Það var heldur enginn á hlaupum, líkt og var í Malasíu. Öll almenn rými voru aðlaðandi, nóg af borðum, stólum, sófum og innstungum. Allt starfsfólkið yfirvegað og brosandi.

Flugið frá Sydney til Nýja-Sjálands (Auckland) gekk vel, en einhver smá seinkun. 

Nýja-Sjáland er, eins og margir vita, líkt Íslandi í landslagi. Við sáum aðeins landið í gegnum glugga flughafnarinnar og fannst það minna okkur á Skotland og Ísland í bland.

Í Auckland fékk yfirfararstjórinn HH tilkynningu um uppfærslu á sætum okkar, yfir í Premium. Við vissum í raun ekkert hvað það þýddi, en fórum og sóttum okkur nýja passa í vélina.


Þegar í vélina kom beið okkar koddi, teppi, vatn, tannbursti, nýjir sokkar, hægindastóll og matur og drykkur eins og við vildum. Við ákváðum að taka 3ja rétta kvöldverðinn og freyðivín með. Ekki oft sem maður snæðir mat í flugvél af postulínsdiskum með silfurhnífapör í hendi og freyðivín úr glerglasi!



Við komuna til Tahiti (Papeete) var tilfinningin eins og að koma til Evrópu, en samt alls ekki. Þurftum enga áritun, lágmarkspappírsvinna og landamæraverðirnir sögðust ekki hafa séð svona vegabréf oft. 

Eyjarnar eru, eins og nafnið bendir til, undir yfirráðum Frakka, en með eigin svæðisstjórn, bæði á landsvísu og í sveitarfélögum, Frakkar ráða málum í löggæslu, dómskerfinu ofl. Margt minnir því að Evrópu í umgjörðinni, en alls ekki í fasi íbúanna og landslagi eyjanna.

Velkomin til landins og njótið dvalarinnar!


Miðvikudagurinn langi, 29. mars - Tímamismunurinn mikli

Það er gaman að skoða tímamismuninn á þessari leið, frá Ástralíu til Frönsku Pólýnesíu.

Við lögðum af stað frá Sydney kl. 10.00 að morgni þann 29. mars og lentum á Tahiti í Frönku Pólýnesíu kl. 01.30 eftir miðnætti sama dag! Fórum sem sagt aftur í tímann! Þessi miðvikudagur var því óvenjulega langur.

Næsta dag var haldið með ferju yfir á eyjuna okkar "Moorea" þar sem gistihúsið við ströndina beið okkar.

Á Moorea, eins og mörgum öðrum eyjum í Kyrrahafi, er aðeins einn ríkisvegur í kringum fjall eyjarinnar og því erfitt að villast!

Sjórinn er hreinn og loftið líka. Aldan unnar steinum á og mælir á sömu tungu og hún gerir um allan heim. Nú er kl. 10.00 að morgni 30. mars, en á Íslandi er komið kvöld, 20.00, 10 klst. munur.

Hér er stuttur fróðleikur um Frönsku Pólýnesíu:

Franska Pólýnesía, samanstendur af meira en 100 eyjum í Suður-Kyrrahafi sem teygja sig um meira en 2.000 km. vegalend. Eyjaklasarnir skiptast í svæðin; Austral, Gambier, Marquesas, Society og Tuamotu. 

Eyjaklasarnir eru þekktir fyrir kórallónin og strandhýsin. Á eyjunum eru hvítar og svartar sandstrendur, fjallendi og háir fossar.

 





þriðjudagur, 28. mars 2023

MB23 - 14. kafli - Sydney

Malasía

Við þurftum að bíða í um 12 klst. eftir tengifluginu til Sydney og því var tímanum eytt í Scrabble og hefðbundin spil.

Þarna var fólk á hlaupum, en ekki í innkaupum, því á 10 mín fresti hlupu flugvallargestir fram hjá okkur, alveg að missa af fluginu sínu.

Við sátum mjög nálægt "letibandi" sem er svona færiband á jafnsléttu fyrir þá sem nenna ekki að nota hefðbundið gólf til göngu. Skyndilega heyrðust miklir skruðningar og eldri maður, lá á brettinu, sem er líklega ekki mjög þægilegt.

Ungir starfsmenn á litlu kaffihorni hlupu til og hjálpuðu honum á fætur. Þá sáum við að hann var greinilega illa haldinn af sérstöku afbrigði áfengisneyslu sem nefnist "Gin og klaufaveiki", þar sem hann ranglaði um og færði þyngdarpunktinn til og frá í von um að standa í lappirnar. Það gekk ekki vel.

Unga fólkið hélt áfram að aðstoða þann rauðþrúttna með því að týna upp eigur hans og drösla honum í hliðið. Hvort hann fékk sæti í flugvélinni vitum við ekki.

Sydney

Við héldum í vegabréfseftirlitið við hliðið út í vél og þar mætti bóndanum (U) vörpuleg ung kona í lögreglubúning (L).

L: Hmmmm, Iceland, now that´s rare. Probably my first passport from Iceland. What language do you speak in Iceland?
U: Well, Icelandic............
L: Really, you have you own language?
U: Yes, we do.
L: I´ve always wanted to go there. Can you teach me some word, just small words, like, how do you say "how are you doing?"
U: Well, Hvernig hefur þú það?, (datt reyndar í hug að segja eitthvað allt annað, en þetta var nú löggan á landamærum..........)
L: Ok, how about, like, My name is?
U: Ég heiti....(ennþá ekki í stuði að rugga bátnum og segja eitthvað út í bláinn)

Þetta hélt eitthvað áfram og röðin við hliðina á mér gekk hratt og vel, en það var orðin ansi mikil og löng röð fyrir aftan mig (U). Frúin (H) var orðin nokkuð áhyggjufull, hélt að eitthvað væri að stoppa karlinn frá því að fara í vélina, en loks lauk íslenskukennslu á landamærum og við gátum farið í vélina í næturflug til Sydney.

Í Sydney er tímamismunurinn við Ísland 11 klst (Sydney á undan) og því orðið aðeins flóknara að eiga samskipti við Skerið, en allt í góðu.

Sydney is staðsett á austurhluta Ástralíu í "New South Wales" og hér búa rúmlega 5 milljónir manna. Borgin er snyrtileg og mengun ekki sérstaklega mikil. 

Það voru mikil viðbrigði að geta gengið yfir á grænu ljósi, en slíkt var ekki hægt í Víetnam og Kambodíu þar sem umferðaljósin eru meira svona til viðmiðunar.

Mikil uppbygging (bókstaflega) er í háhýsum við höfnina í Sydney og þar er mjög mikið mannlíf og á götunum upp frá höfninni.

Við fórum í langa göngutúra um miðborgina og hafnarsvæðið. Í fyrri göngutúrnum rákumst við á söluturn þar sem boðið var upp á sjóferðir um höfnina. Flott, sagði bóndinn, förum í útsýnisferð og tökum myndir og svona. 

Við skrifuðum undir skjal sem firraði bátafyrirtækið allri ábyrgð og héldum niður á flotbryggjuna. Þar var okkur sagt að skilja allt eftir, skó, töskur, myndavélar, síma og hvað eina. Dáldið spes, hugsuðum við. Farið í hlífðarbúninga! Já, ok, andfætlingarnir með öryggismálin á hreinu, enginn skal blotna!

En þetta var alls ekki útsýnisferð, bara alls ekki. Þetta var hraðbátaferð með endalausum snúningum og kafsiglingum!

Við urðum auðvitað hundblaut, varla þurr þráður þegar komið var í landi. Um borð var blastað Dire Straits og annarri tónlist frá þessum slóðum, allt í botni.

Eftir að hafa undið fötin og sótt eigur okkar, settumst við að snæðingi á veitingastað við flotbryggjuna. Þá sáum við að miðaldra og enn eldra fólkið fór í næsta bás við hliðina til að fara í skoðunarferð, en ekki í þennan hálf stjórnlausa þvottabala sem við ákváðum að væri hugguleg skoðunarferð um stærstu höfn í heimi frá náttúrunnar hendi.







laugardagur, 25. mars 2023

MB23 - 13. kafli - Kambódía - Angkor Wat

Hittum leiðsögukonuna okkar, hana Kim, og bílstjórann kl. 8.00. Haldið var af stað í skoðunarferð í helstu hofið á svæðinu.

Ta Promh - Tomb raider hofið

Apsara dansgyðjurnar eru mjög áberandi í flestum hofum í Kambódíu og hér var það engin undantekning. Konungurinn lét byggja skóla og síðan var hof byggt við skólann, til minningar um móður hans. Þangað fór konungur til að biðja og heiðra móður sína.

Merki eru um að staðurinn þar sem hann bað til móður sinnar hafi verið skreytt gulli og demöntum sem síðar var stolið af rauðu kmerunum á 8. áratugnum.

Nýlega var lokið endurreisn danssalarins þar sem drottingarnar dönsuðu með stúlkunum sínum.

Kvikmyndin Tomb Raider var tekin upp í hofinu árið 2000 og í framhaldinu lét aðalleikona myndarinnar, Angelina Jolie, til sín taka við uppbygginu á svæðinu. Fékk hún UNESCO í lið með sér og hafa nú fjölmörg hof verið sett á heimsminjaskrá.

Við endurreisn á hofi eru steinarnir merktir og þeim komið fyrir að afmörkuðum stað þar til ákveðið er að hefja endurhleðslu hofsins. Verkið er gríðarlega tímafrekt og kostnaðarsamt.

 



Banteay Srei Temple

Lítið hof sem ætlað er fyrir bænahald á meðal almenning (karla). Hofið er skreytt fagurlegum veggmyndum og er hofið sambland af búdda- og hindúatrú. Þannig var hægt að biðja til Siva og Vishnu.

Hofið var byggt á 10. öld og fundu Frakkar hofið á nýlendutímanum og hófu endurreisn þess.




Takeo

Hofið var byggt á 10. öld fyrir konunginn. Hofið var hins vegar aldrei tekið í notkun þar sem eldingu laust niður í það. Hofið var nánast fullbyggt, en engar veggskreytingar komnar.

Við fórum alla leið upp í miklum hita, 38 gráður, og svitinn bogaði af okkur.



Thommanon og Chau Day Tevoda

Þessi hof voru mjög áþekk, bæði byggð á 12. öld. Bæði eru þetta fremur kæutk hof sem ætluð eru fyrir bænahald á meðal almennings (karla). Hofin er skreytt fagurlegum veggmyndum.



Angkor Wat

Angkor Wat var byggt á 12. öld og er krúnudjásn Kambódíu og prýðir mynd þess þjóðfána landsins. Landið sem tilheyrir hofinu er um 160 hektarar að stærð. Svæðið er umlukið vatni sem er um 5 km. að lengd.

Hofið var 37 ár í byggingu og sækja þurfti grjótið í 50 km. fjarlægð. Byggingu þess lauk fáum árum eftir andlát konungsins.

Þegar Frakkar fundu hofið var það í góðu ásigkomulagi og hafði legið undir gróðri um langan tíma.

Aðalinngangurinn er með 5 hliðum. Í miðjunni er hlið fyrir konunginn, annað fyrir hershöfðingja og hermenn og síðan tvö á sitthvorum endanum fyrir almenning og dýr (fíla ofl.)

Eftir hliðin er komið inn í gríðarstóran garðinn með fallegum trjám og gróðri. 

Inni í hofinu sjálfu, sem er afar stórt og á þremur hæðum, voru 4 sundlaugar sem konungurinn baðaði sig í fyrir bænir. Hver sundlaug táknar eld, vind, jörð og vatn.

Að því loknu var haldið upp á topp á hofinu þar sem aðal bænastaðinn er að finna.

Hæð turnanna fjögurra frá gólfinu sem þeir standa á (ekki frá jörðu) er um 65 metrar, sem er nálægt hæð Hallgrímskirkjuturnarins.

Eftir gönguna upp og síðan niður þrepin, biðum við eftir sólsetrinu og ennþá að farast úr hita, langt yfir 30 gráðu hiti við sólsetur.

þegar vð komum á hótelið hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar og skelltum okkur í sundlaugina og urðum fyrir miklum vonbryggðum þar sem hún var orðin alltof heit hlandvolg vorum að vonast eftir kaldri laug.

Í kvöldmatnum fórum við á risavaxinn veitingarstað með alltof stóru hlaðborði og nutum danssýningar í anda Apsara dansgyðjunnar. 







Í dag 25 mars er brottfarardagur okkar frá Kambódíu, okkur tókst að gera heilmikla dramatík og misstum næstum af fluginu okkar, það munaði bara 5 mínútum "ég get svo svarið það" þessa sögu fá aðeins útvaldir að heyra við tilheyrðum klaufabárðum og hugsunarlausum um tíma. Erum núna stödd á flugvellinum í Malasíu hefðum haft tíma til þess að bregða okkur í borgarferð um Kuala Lumpur en taugakerfið hafði ekki orku í það, svo vorum við svo heppin að hér er grenjandi rigning. Eigum flug héðan í kvöld, nú liggjum við bara á gólfinu og hlöðum símana okkar eins og ekta flugvallarrottur.








fimmtudagur, 23. mars 2023

MB23 - 12. kafli - Kambódía - Siem Reap

Ho Chi Minh - Siem Reap - Afmælissöngur

Dagurinn hófst að því að senda afmælisbarni dagsins, Halldóri Friðrik, afmælissönginn með hjálp samfélagsmiðla!

Héldum af stað í flug frá Hó Chi Minh (Saigon) til Siem Reap og kvöddum þar með Víetnam með miklu þakklæti. Vonumst til að geta heimsótt landið á nýjan leik síðar.

Víetnam er fallegt land, fólkið er vinalegt og gott, þjónustan góð og maturinn frábær! Víetnamar eru harðduglegt fólk sem hefur þurft að upplifa miklar mannraunir, en þrautsegja þeirra hefur í raun sigrað allt.

Komum til Siem Reap með Cambodian Angkor Air í hálffullri vél. Við komuna til landsins var nokkuð sérstakt að ganga út úr vélinni og líta yfir flugvallarsvæðið, því þetta var eina vélin sem var sjáanleg á svæðinu.

Eftir visaáritun og marga stimpla héldum við af stað til að skoða hof í fylgd okkar einkaleiðsögukonu og bílstjóra hennar. Bílinn vaggaði vinalega og ljóst að eitthvað þarf að kíkja á hjólabúnaðinn að aftan.

Í aðfluginu að Siem Reap sem er höfuðborg Kambódíu þá sáum við yðagræn landbúnaðarsvæði og græna skóga. Borgin er lágreist byggð með mörgum gærnum svæðum og tjörnum, Fátækt er sýnileg, en merki eru um uppbyggingu. Frönsk áhrif í byggingargerð er töluverð. Í borginni búa ein milljón manna. Andrúmsloftið hér er mjög afslappað enginn að flýta sér, umferðin róleg og enginn á bílflautunni. Það verður athygglisvert að fá að upplifa nýtt land og þjóð.

Landvættir Kambódíu eru Fíllinn og Snákurinn. Í öllum hofum á svæðinu má sjá myndir af þessum landvættum höggna í eða úr sandstein.

Angkor Thom (Great City)

Angkor Thom er borgarsvæði sem nær yfir 10 ferkílómetra og er umkringt hlöðnum virkisveggjum. Innan borgarinnar er að finna fjölmörg hof, bæði búdda og hindúahof. Í sumum hofanna er bæði þessi trúarbrögð að finna.

Mörg þessara hofa voru horfin undir jarðveg og trjágróður og því í raun týnd. Hins vegar fundu Frakkar nokkur hof á nýlendutímanum á 19. öld. Síðan þá hefur verið unnið að því að endurbyggja þessi hof, sem er auðvitað mjög tímafrek og erfið vinna.

Svæðið allt er á heimsminjaskrá UNESCO sem styrkir endurreisnina með fjárframlagi og sérfræðiþekkingu.

Við vorum gjörsamlega heilluð af hversu stórfengleg mannvirki þetta eru og hversu gott handverk sögugerðar á veggjum er. Við gengum í tvo tíma um fallegt skóglendi í mjög miklum hita (36c) og vorum farin að finna lækina steyma niður hryggjaliðina á okkur.

Myndir segja meira en þúsund orð! 

















MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...