fimmtudagur, 2. mars 2023

MB23 - 4. kafli - Thailand vika 2

Föstudagurinn 3. mars 2023

Áfram heldur ferðin og vika nr. 2 liðin hjá með hraði!

Phraya Nakhon - hellirinn

Á mánudaginn, 27. feb, skelltum við okkur í hellaskoðun með slatta af krefjandi fjallgöngum. Eftir akstur inn á svæðið komum við að upphafspunktinum þar sem gangan í áttina að hellinum hefst.

Hellirinn ber heitið "Phraya Nakhon" og þar er minnsta hof Thailands að finna. Raunar eru þetta tveir hellar, en sá með hofinu er öllu tilkomumeiri, bæði hvað varðar stærð, lögun og birtudansinn sem þar á sér stað, einu sinni á dag (eins og frúin orðaði það :-). Hellarnir eru í þjóðgarðinum, Khao Sam Roi Yot, sem er nokkuð stór þjóðgarður og áhugaverður m.a. fyrir fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vaðfugla, auk þess sem gríðarmikið ferskvatnssvæði er þar að finna.

Gangan, í 30+ stiga hita og sól, var ekki beinlínis árennileg fyrir okkur, enda reynslan á þessu sviði heldur takmörkuð. Búið er að útbúa þrep upp og niður eftir þessum tveimur hæðum sem gengið er um, svo flestir ættu að geta farið þetta á sínum hraða. Útsýnisstaðir eru líka til staðar þar sem hægt er að kasta mæðinni og taka nokkrar myndir í leiðinni, auðvitað.

Eftir gönguna upp og niður fyrra fjallið komum við niður á strönd og gengum eftir henni að næsta fjalli þar sem gönguleiðin leiddi okkur að hellismunnanum.

Hellirinn er um 70 metra djúpur og mestmegnis úr "Limestone" bergi sem vatn vinnur auðveldlega á. Það er talið að hellirinn hafi myndast með vatnsrennsli neðanjarðar, en rof hafi komið í þakið síðar og þannig opnað hann fyrir sólarljósi. 

Hofið, Kukha Karuhas, er mjög fallegt lítið hof sem nýtur sín einkar vel í þessu umhverfi. Það var byggt í Bangkok árið 1890 og flutt í hellinn í einingum og sett saman á lágri hæð í hellinum.

Sólarmyrkvinn árið 1968 hlýtur að hafa verið mikið sjónarspil þarna í hellinum!

Á leiðinni til baka heilsuðu okkur nokkrir litlir apar (Dusky Leaf Monkey) sem hjálpuðu okkur við að hvíla fæturna sem voru orðnir þjakaðir af mjólkursýrubaði! Takk fyrir það!


Matarmarkaðurinn.

Eftir að hafa jafnað okkur að mestu á háfjallaveikinni skelltum við okkur á reiðhjól sem boðið er upp á hér í hverfinu og á matarmarkaðinn í bænum. Við komumst fljótt að því að bilanagreina þarf þessi reiðhjól í hvert einasta sinn þar sem stýrið er yfirleitt laus, hnakkurinn líka, keðjan slök og lítið loft í dekkjunum. Þarna koma sér vel að vera af BMX kynslóðinni í Hólminum, minnsta mál að græja þetta með fábrotnum verkfærum heimamanna!

Það er nokkuð ljóst að heilbrigðisfulltrúar sveitarfélagana á Íslandi og eflaust víðar, fengju líklegast faglegt heilnæmisáfall við að sjá vinnubrögðin á kjöt- og fiskihráefninu á markaðinum. Flugurnar eru hressar þarna, enda nóg um að vera fyrir þann dýraflokk. 

Við keyptum nóg af grænmeti og ávöxtum sem litu vel út. Fínt í "smúþíið"!

Merkilegar vörumerkingar.

Því er ekki að neita að við eigum í töluverðu basli með vörumerkingar hér í landi. Bóndinn sá um kaup á tannkremi frá Colgate, sem ætti nú að vera nokkuð öruggt upp á bragðið að gera. 

Í leiðinni var gripið í snakkpakka af stærri gerðinni frá Lay´s, grænir pokar, ábyggilega eitthvað "orginal" bragð.

Snakkið var ekki gott, með einhverju óljósu MSG blönduðu sushibragði sem ekki var mjög "orginal". "Það má venjast þessu", sagði frúin í anda Marteins Mosdals og þar við sat. Hún má eiga það, skuldlaust.

Þá var komið að tannburstun kvöldsins. Hreint út sagt fullkomlega viðbjóðslegt salt-sjávarskelja-myntu bragð mætti á staðinn. Hvaða snillingur á "brainstorm" fundi fyrirtækisis sagði: "Hey, ég veit. Hvað með salt-sjávarskelja-myntu bragð?". Sá er greinilega enn starfandi hjá Colgate, gott hjá honum.

Eftir að hafa hlaðið niður verkfæri frá Google og co. gátum við farið að skoða þetta nánar og munum héðan í frá hafa það uppi við í verslunarferðum okkar!

Draumaland Dóru - Monsoon Valley

Á bjórdeginum sjálfum, 1. mars, var haldið í Vínbúgarðinn "Monsoon Valley" hér í nágrenninu. Engin bjór í boði samt.

Þarna var frúin á heimavelli, ekki nokkur spurning. Við fórum í stutta skoðunarferð um landareignina, sem telur rúma 200 hektrara, sem er heldur minna en Efra-Sels landið, og liggur í dalverpi umkringt hæðum og fjöllum. Uppskeran er í fullum gangi þessa dagana, feb-mars og því nóg um að vera.



Búgarðurinn var stofnaður árið 2001 og býður upp á fjölbreytt úrval af vínum sem unnin eru úr þrúgunum sem ræktuð eru á svæðinu.

Þarna er líka að finna lítinn griðargarð fyrir fíla sem ýmist hafa verið í sirkusum eða fengið illa meðferð (keðjur og önnur leiðindi) hjá fyrrum drottnurum sínum. Um 1.500 fílar eru á vegum þessara góðgerðasamtaka í griðargörðum sem þessum í Thailandi. Við heilsuðum upp á tvo fíla sem fíluðu litlu ávextina í botn sem við gáfum þeim. Þrátt fyrir að vera með 2,5 cm þykka húð, eru þeir næmir fyrir snertingu og fannst mjög gott að láta klappa sér smá.


Eftir ferðina var sest að borðum og nokkrir tapasréttir smakkaðir með vínpörun sem er voða mikið "inn" núna, af einhverjum ástæðum. Mjög góður matur og vínin alveg ágæt. Best var rauðvínið, kannski af því það var síðasta glasið sem boðið var upp á ............

Veitingastaðurinn, sem eflaust skapar meiri tekjur en vínframleiðslan, er einkar glæsilegur og útsýnið yfir ræktunina mjög flott. Góður matur og mjög margir Danir á svæðinu að þefa oní glös og hringrugga þeim eins og maður gerir á stað sem þessum, "skide godt vin, ja det er helt fantastisk" heyrðist óma um dalverpið.

Við mælum eindregið með heimsókn á Monsoon Valley, virkilega flottur og snyrtilegur staður að sækja heim.

Við eigum eftir að fara golf hér í Thailandi, ákveðinn skellur að vera ekki búin að því, en við erum að vinna í því.

Að öðru leyti líða dagarnir við heimsóknir í "gymið", hlaðvörp, bókalestur, "skrabble", sundlaugabusl, vindsængulegur, hjólreiðatúra og fleira.

Meira síðar!














2 ummæli:

  1. Takk fyrir uppfærsluna. Við Selfyssingarnir stefnum á Hreppinn um komandi helgi til að kíkja á hjónaball. Þið fáið uppfærsu eftir helgi. Haldið áfram að njóta og leyfa okkur hinum á Íslalandinu góða að fylgjast með. Ástar og saknaðarkveðjur.

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir elsku Fjóla Dögg við höldum áfram að njóta. Við söknum ykkar líka :)

    SvaraEyða

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...