og áfram höldum við............
Hátíðarstemmning á ströndinni - Long Lay Market
Innansveitar fólkið hér um slóðir heldur á hverjum laugardegi “þjóðhátíð” á ströndinni hér í nágrenninu þar sem ýmislegt góðgæti í mat og drykk er í boði.
Endalaus röð matarvagna og drykkjasölubása er að finna á ströndinni. Allt frá grilluðum kjúlla upp (eða niður) í pönnu-/djúpsteikt skordýr er að finna hjá sölufólkinu. Ávextir hvers konar, drykkir og fleira.
Þarna var nánast eingöngu heimafólk á
ferðinni, við vorum í hópi örfárra fölleitra ferðamanna, innan við 10 manns. Á
ströndinni voru nokkur hundruð manns saman komin, ungir sem aldnir.
Frábær grillstemmning með lifandi tónlist
og nokkurra lítra “bjórturnum” á borðum fyrir þá sem slíkt kjósa.
Við fórum 2svar á þennan viðburð, tvo laugardaga í röð. Mælum með þessu.
Á góðri leið “á götuna”
Dag nokkurn í vikunni hittum við danskan
fasteignasala sem sat kumpánlega á sólbekknum við íbúðina þegar við komum heim
úr verslunarferð.
Hann leit út fyrir að vera hissa að sjá
okkur, enda taldi hann öruggt að enginn ætti að vera í íbúðinni, því hann væri
að selja hana.
Við reyndum að útskýra fyrir honum að
íbúðin væri svo gott sem innan fjölskyldunnar, en hann var samt ekki
sannfærður, sagði eigandann hafa tjáð sér að hér ætti enginn að vera.
“Svona líður þá hústökufólki”, sagði
bóndinn við frúnna.
“Skal vi not bara finna something out of
this”, sögðum við á alltof íslenskublandaðri skandí-saxnesku.
“Ja, jeg ringer til ejeren!”, sagði sá danski.
Við biðum átekta, en hann náði ekki í
neinn. Ok, hvað eruð þið lengi að taka til og þrífa svo ég geti tekið myndir
sagði sá danski. Tja, 10 mín sögðum við. Ok, jeg kommer igjen!!.
Við létum hendur standa fram úr ermum og
þrifum og tókum til á Efra-Sels fljótfærnishraðanum sem skilaði okkur langt,
eins og gjarnan háttar til þar á bæ.
Daninn kom til baka með áhugasaman kaupanda
í myndspjalli. "Nej, jeg kender ikke disser mennesker", sagði fasteignasalinn í
rafrænni ferð sinni um íbúðina. Að því loknu kom hann til okkar og sagðist vera
búinn að selja, bingó! Jeij, það er frábært, er það ekki annars?
Sem betur taka pappírsmálin sinn tíma hér í
landi, þannig að við sleppum með skrekkinn og getum haldið okkar áætlun. Lendum ekki á götunni, sem betur fer.
Veðráttan
Hér er veðrið nánast eins frá degi til
dags, 30/34 stig á daginn og 26/28 á kvöldin, fremur rakt. Við höfum ekki
staðið í rigningu um 5 vikna skeið, sem gæti verið einhverskonar met hjá
okkur.
Það er hins vegar nokkuð vindasamt á þessu svæði, sem reyndar er bara fínt fyrir okkar smekk. Nokkuð brim er við ströndina og því lítið verið farið í sjóböð í heitum sjónum, það bíður betri tíma. Heimamenn nota ströndina lítið, aðeins um helgar og krakkarnir eru dugleg við að fara í sjóinn. Þeir fullorðnu nýta það sem sjórinn gefur, krabbar og fleira góðgæti.
Svitinn í þessum hita og raka gerir það að
verkum að erfitt reynist að sitja kyrr í öllum helstu tegundum af stólum og
bekkjum ýmiskonar, auk þess sem sólgleraugu eiga það til að renna endurtekið
fram á nefbroddinn. Bóndinn er í mun betri stöðu hvað þetta varðar, enda með
svokallað “Noregskonunganef” af Breiðfirskum ættum sem gerir það að verkum að
sólgleraugun eru mun lengur að renna sitt skeið en hjá frúnni. Þó er frúin með
svolitla kartöflu á nefbroddinum, en ekki nógu stóra til að það komi að
einhverju gagni.
Af snákum skulu þér þekkja þá
Hér í landi er mikið um snáka og eðlur ýmiskonar. Í vikunni heimsótti okkur snákur í fagurgrænum lit og vildi endilega eiga við okkur (m)orð, en við afþökkuðum pent. Eðlurnar halda áfram að fela sig á bakvið gluggatjöld, púða, veggmyndir og rafmagnstöflur. Frúin heldur sömuleiðis áfram við að halda eðlustofninum í skefjum, þrátt fyrir ábendingar um að þær séu til gagns við meindýravarnir. “Nei, ég drep þá bara skordýrin líka”…..ekki meira um það.
Hví leka flötu þökin?
Flötu þökin hér á svæðinu eru til sömu
vandræða og t.d. á Íslandi, lekandi í gríð og erg. Sumir telja það
náttúrulögmál að vatn leiti niður á við, en ekki virðast allir sannfærðir um
það, heldur er áfram bisast við að hanna og byggja “sundlaugar” á hýbýlum
fólks.
Sem betur fer er viðgerð hafin á þakinu við
hliðina á okkur í íbúð sem sem tengdaforeldrar Halldórs Friðriks, sonar okkar,
eiga. Við erum búin að ganga rösklega á eftir því að það yrði gert og nú virðist
loks stefna í að íbúðin verði aftur nothæf innan fáeinna vikna. Vatnshalli
verður aukinn og vatnsvörn endurbætt og því ætti þetta að halda í einhvern tíma
að minnsta kosti.
Raunar heimsótti okkur eldri kona frá Hollandi sem var að leita að íbúð á svæðinu og leist nú bara vel á þessa íbúð. Kannski að við ættum að fara fram á sölu %, eftir öll þessi viðskipti.
Körfubolti á pálmatré og önnur hreyfing
Við ákváðum að taka “einn á einn” í
körfubolta hér í hverfinu. Spjaldið er fest á pálmatré, auðvitað, en eitthvað
gekk okkur illa við að hitta. “Ég þarf nú nokkur skot”, sagði bóndinn og ofmat
gjörsamlega forna frægð. Frúin var hress, en hitti hvorki í hringinn, á
spjaldið eða í tréið. Skýringin var nokkuð augljós. Hæðin var röng, tréið er
búið að “oxna og oxna” í mörg ár og hringurinn því kominn í stjarnfræðilega
hæð. Við fórum heim……….
Við notum hins vegar reiðhjólin mikið og
förum nánast allra okkar ferða á þeim, í búðina, á ströndina í nuddið og hvað
eina.
Söngvakeppnin í alvarlegum tímamismun
Tímamismunurinn hér, miðað við Ísland, er 7 klukkustundir á undan. Þetta er smá ves, enda var söngvakeppnin kl. ca. 03.00 hjá okkur. Því ríkti algert net- og fjölmiðlabann á sunnudagsmorguninn, ekkert mátti leka út um úrslit kvöldsins.
Frúin bombaði í alvöru
morgunverðarhlaðborð, opnaði "sjampóbrúsa" og allt var keyrt í gang, kl. 8.00 að
staðartíma. Frábær skemmtun og úrslitin í takt við það sem við vonuðumst eftir.
Miðaldra fólk virðist kunna á snjalltæki, en úthald skortir. Freyðivínið var
frá svæðinu hér um slóðir og var algerlega hrikalegt, einshvers konar sherry freyðivín,
dísætt og skrítið.
Skuggi allur
Við fengum þær sorgarfréttir að Skuggi,
hundurinn okkar til 12 ára, hafði lokið sinni hundagöngu. Helgi, frændi, var
með Skugga í “pössun” og hafði tekið eftir því að honum hrakaði eitthvað þennan sama dag. Hann var með hósta og hita og varð síðan allur, skyldilega. Líklega hefur hjartað gefið sig á endanum, af einhverjum ástæðum sem kunnum ekki frekari skil á.
Skuggi varð tæplega 12 ára, sem þykir nokkuð eðlilegur líftími fyrir hunda af þessari tegund.
Danni og Helgi eru búnir að koma bæði
Skugga og Sölku Völku (sem einnig dó nýlega) fyrir í gamla garðinum þar sem þau hvíla
lúin hundabein sín. Takk fyrir samferðina Skuggi!
Af ofhvíld
Við gáfumst upp á endalausri hvíld hér í
landi, þó svo við höfum haft ýmislegt fyrir stafni dag hvern. Frúin reif allar skúffur út á gólf og bónaði innréttinguna að innan sem utan. Það var töluvert af sagi í innréttingunni, þannig að þetta var mjög líklega fyrsta "jólahreingerningin".
Eftir að hafa sett upp þrifaáætlun erum við byrjuð á allsherjar þrifum á íbúðinni, þannig að fyrri eigandi geti vel við unað þegar nýi kaupandinn tekur við henni. Viftur, rúður, innréttingar, allt skal þrifið hátt og lágt!
Brúðkaupið og fulli frændinn
Á sunnudagsmorgun, rétt fyrir kl. 6.00, upphófst mikil danstónlist í nágrenni við okkur. Frúin taldi víst að bank væri í ofnunum, en hér eru öngvir ofnar, heldur kælikerfi og ekki kom bankið þaðan.Tónlistin var "tjúnuð" í botn, ekkert gefið eftir þar, þrátt fyrir að snemma væri sunnudagsmorguns, en við erum árrisul sem betur fer í þetta sinnið.
Í kjólfarið mætti ræðumaður og hóf að "tala í hátalarann", eins og sumum er tamt að segja. Hann, í alvörunni, hljómaði eins og bullsveitti fulli frændinn sem er með tvær neðstu tölurnar óhneppnar, buxnaklaufina opna og kominn með bindið fram á ennið.
"Jesús, hvaða partý er þetta eiginlega, fyrir hvern er þetta eiginlega?". Ræðumaðurinn virkaði drafandi og dró seiminn hvað eftir annað.
Skýringin var einföld og augljós (eða þannig), brúðkaup var hafið á sveitabæ í nágrenni við okkur.
Eftir mikið dansstuð hófu munkarnir upp raust sína og kirjuðu í gríð og erg til heiðurs brúðhjónunum.
Við komumst að því að þetta væri hefðbundið brúðkaup, hefst yfirleitt kl. 6.00 og 9 munkar eru viðstaddir (þeir sömu og brúðhjónin höfðu hitt daginn áður) og eru þar allan morguninn og snæða svo hádegisverð með brúðhjónunum.
Tónlistin (bæði lifandi og ekki) hélt svo áfram til að verða 16.00. Eftir það virðist sem hlé hafi verið gert á veisluhöldum og kvöldverðurinn farið fram á öðrum stað þar sem m.a. nokkrir kassar af víski hafa líklega komið við sögu.
Hér er myndband þar sem heyra má í "bullsveitta fulla frændanum", sem reyndist svo vera veislustjórinn, líklega.....hækkið í viðtækjunum!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli