laugardagur, 21. janúar 2023

Undirbúningur og lausir endar

Hvers vegna erum við á leið í þetta ævintýri? 

Eftir sumarið 2021 vorum við búin með allt vinnuþrek enda gáfum allt sem við áttum í fyrirtækið okkar. Heilsa okkar var í húfi og við áttum mjög lítið líf fyrir utan vinnu, fjölskyldan sat á hakanum og sömuleiðis við sjálf. Að reka sitt eigið litla fyrirtæki með sóma tók á. Við tókum þá ákvörðun að nú værum við búin að ganga of nærri okkur andlega og líkamlega, enda veikindi farin að banka uppá hjá okkur. 

Svo vorum við líka orðin amma og afi, við yrðum að hafa tíma til að takast á við það mikilvæga hlutverk. 


Tilkynning var gefin út og hugmyndir fóru af stað hvernig selja ætti fyrirtækið. 


Þessi mynd er af okkur eftir síðasta opnunardaginn okkar á Kaffi-Sel 26. september 2021. Þetta fallega fyrirtæki sem foreldrar mínir byggðu upp á ótrúlegan hátt með mikilli elju, vinnusemi og litlu fjármagni. 

Haustið leið þó að veitingastaðurinn væri lokaður þá sinntum við gistingunni okkar áfram enda voru erlendir ferðmenn duglegir að ferðast um landið. 

30. nóvember var dagur sem erfitt er að gleyma þar sem að pabbi geinist með krabbamein. Fjölskyldan þjappaði sér saman og allir voru til staðar fyrir hann og mömm. Líf okkar allra tók óvæntar og óþægilegar beygjur. Lyfjameðferð og geislar voru reyndir en komu ekki að gagni. Harmleikur sem tók enda 23. febrúar 2022 þegar hann sofnaði sínum hinsta svefni.
Inní þessari hringiðu gekk sala fyrirtækisins eftir, sala á golfvelli og veitingastað. Gistingin er enn í okkar eigu. Erfitt reyndist okkur að finna gleðina í sölunni eða finna vinnuþrek í miðju sorgarferlinu.

Sumarið 2022 var nánast fullbókað í gistingunni og ekki mikið rými vegna stanslausrar yfirlegu og þá fengum við hugmyndina um það hvernig við gætum tekist á við örmögnun og kulnun.

"Við eigum inni sumarfrí er það ekki" ræddum við okkar á milli "jú allavega eitt ár" og þá var það frá.
"Við þurfum að komast í burtu" "já, hvernig væri að ferðast" "já gerum það"

Undirbúningur að ferðalagi og sumarfríi hófst í ágúst og er búinn að standa í hálft ár. Enda að mörgu að hyggja.

Fyrsta skref var að fara í bólusetningar; fjórar sprautur samtals, allskonar gull sett í kroppinn okkar eins og Vinir vors og blóma sungu um  árið "Gott í kroppinn ahaaaa"

Gistihúsin okkar voru sett í langtímaleigu :) 

Listinn var langur af allskyns verkefnum sem leysa yrði áður en lagt væri af stað. 
T.d hvað gera ætti við gæludýrin eftir miklar vangaveltur var Helgi bróðir mömmu fenginn í starfið hann mun því passa húsið okkar og gæludýrin í þessa fjóra mánuði.
Hvenær verður svo lagt af stað? jú þegar allir lausir endar hafa verið hnýttir. Fyrsta flug verður 3. febrúar næstkomandi.

Janúar 2023 var fyrsti mánuðurinn í sumarfríinu. Við dvöldum á Vesturvallagötunni í nokkra daga og gerðum okkar besta að koma þeirri íbúð í betra stand, við hittum góða vini og nutum þess að vera hjá Áslaugu, Kára og Loga Stein. 
Í sumarfíi er alltaf nóg að gera og við rétt höfðum tíma til að fara heim, taka niður jólaskrautið koma því fyrir uppi á háaloft (blessuð frúin fékk tak í bakið við það) og svo var skundað með góðum vinum norður á skíði. Hlíðarfjall tók vel á móti okkur, hlíðin snævi þakin og við bara nokkuð sleip á skíðunum og ég bara vel vöxuð. Gleðin var í algleymi, góðar veigar runnu ljúflega niður eftir skíðagleði, mín bara alveg orðin góð í bakinu. 
Laugardagsmorguninn vaknaði Unnsteinn við míkið högg í húsinu, fann frúnna liggjandi föla jafnvel græna, á gólfinu, verkurinn í bakinu var svo mikill að líkaminn ákvað að líða yrði yfir hana, með beiglað bak, marða olboga og kúlu á höfði fengum við okkar fyrstu kynni af bráðamóttöku Norðurlands. Þessi vika hefur svo farið í það að koma bakinu í ferðalagsform.

Næstu dagar fara svo í frekari undirbúning og binda þessa blessuðu lausu enda. Þangað til næst.






Engin ummæli:

Skrifa ummæli

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...