miðvikudagur, 8. febrúar 2023

MB23 - 1. kafli - Ísland - Danmörk - Þýskaland

Miðaldra bakpokar 2023 (MB23)

3. feb - 5. feb

Föstudagurinn 3. febrúar runninn upp og tími til kominn að halda af stað í reisuna miklu, eftir nokkurn undirbúning. 

Eftir að hafa loks lokið við endurgerð íbúðarinnar hjá litlu fjölskyldunni á Vesturvallagötunni, sem tók meira en 1 ár, var ræs kl. 03.00. Áslaug Guðný skutlaði svefndrukknum foreldrum sínum á BSÍ þar sem við slógumst í för með erlendum ferðamönnum sem virtust hafa fengið nóg af veðursældinni á Fróni. 

Fluginu með Play til Köben hafði verið flýtt vegna yfirvofandi óveðurs sem endilega vildi heimsækja landið, þrátt fyrir að gestgjafarnir séu nú löngu búnir að fá nóg af slíkum heimsóknum. 

Í skiptum fyrir blessað óveðrið fengum við hressilegan byr í seglin og vorum ekki nema rúma 2 tíma til Köben. Mælum ekki með Burger King á Kastrup, fáið ykkur bara brauð í fljótandi formi í staðinn, það klikkar yfirleitt ekki hjá Dananum. 

Eftir 4 klst. lestarferð til Silkeborg tók Halldór Friðrik brosandi á móti okkur. Við gistum hjá honum og Mai á Edwaldsgötunni í Silkeborg sem staðsett er í friðsælu og notalegu hverfi. Halldór starfar sem línustjóri í vöruhúsi hjá Söstrene Grene og Mai vinnur á flottum leikskóla í nágrenninu. Þau stefna svo á nám í náinni framtíð. Verðum gaman að fylgjast með hvernig þeim gengur. Takk fyrir frábærar móttökur Mai og Halldór!!

Í Silkeborg var farið í langa og stutta göngutúra. m.a. til Silkeborg Bad þar sem við skoðuðum neðanjarðarbyrgi sem Þjóðverjar byggðu og notuðu í seinni heimstyrjöldinni á tímabilinu 1943-1945 til að verjast bandamönnum. Staðsetningin var líka hentug fyrir þá til að eiga möguleika á að hörfa til suðurs í átt til heimalandins. 

Þar sem þorrinn stendur sem hæst í Íslandi þá var auðvitað haft meðferðis hákarl, harðfiskur, flatkökur með hangiketi og ískalt brennivín til að leyfa innfæddum að smakka. Þau Lotte og Torben, mamma og fósturpabbi Mai, komu í heimsókn og smökkuðu herlegheitin og líkaði vel! Sérstaklega þótti þeim flatkökurnar og hangiketið gott. 

Við tókum auðvitað með okkur rammíslenskt kvef yfir hafið og erum að vinna að þvi að losna við það, smátt og smátt!

6. feb - 8. feb

Þann 6. febrúar var lagt af stað frá Silkeborg til Flensborgar til Slesvíkur og Hostein sem Danir áttu nú lengi vel. Halldór og Mai vildu endilega skulta okkur þangað og var það vel þegið. Við þvældumst svolítið um borgina og Halldór og Mai nýttu sér tækifærið eins og sönnum Dönum/Íslendingum sæmir og versluðu grimmt við landamærin og héldu svo til baka. 



7. febrúar - Nú var komið það því að halda sunnar á bóginn, en auðvitað var höfnin í Flensborg skoðuð og fengið sér hressingu á litlu veitingahúsi við höfnina. Það er heldur napurt þennan dag og því kærkomið að fá sér súpu hjá þeim þýsku. Súpan var reyndar einstaklega bragðvond, því ekki áttum við von á því að sviðasultubragð gæti átt heima í þýskri lauk/hakk súpu, en það var nú samt raunin. Kannski var þetta bara fínt, þorrinn í gangi og svona.

Þá var nú komið að því að taka næstu lest frá Flensborg til Frankfurt. Ekki leist okkur á tímarammann sem okkur var gefinn til að skipta um lest í Hamborg (þar sem frúin býr, er það ekki?). Tíminn var 8 mínútur og við uppfull af klisjunni um nákvæmni þýskra borgara. Ekki bætti úr skák að lestin til Hamborgar seinkaði um 4 mínútur og því gerðum við okkur klár eins og sannir ungmennafélagsiðkendur, sprettur með alla bakpokana framundan. Hvaða spor áttum við að mæta á, nr. 13 var það ekki? Jú, það stemmir. Um leið og lestin stoppaði, ýtum við þreytulegum skrifstofublókum úr vegi og olboguðum okkur út og inn á stöðina.  

Kappið bar okkur eiginlega ofurliði, fórum í þveröfuga átt, en vorum fljót að átta okkur og hlupum upp og niður stiga og inn á nr. 13, 2 mín fyrir áætlaðan brottfarartíma, glæsilegt var nú hlaupið ekki með sveiflukenndum bakpokum, en það dugði. En á spori 13 var lest sem var alls ekki að fara til Frankfurt. 

Við hliðina, á spori 14, var hins vegar lest sem var greinilega á leið til Karlsruhe sem er sunnan við Frankfurt og því líklegt að hún myndi duga okkur. Við fórum um borð þrátt fyrir annað lestarnúmer, annan brottfarartíma og annað spor. Við létum bara slag standa og vildu sjá til hvort þetta væri ekki bara rétta lestin, þrátt fyrir að nánast allt annað benti ekki til þess. Erfðafræðileg Selsþrjóska varð til þess að setið var sem fastast. Í ljós kom að miklar seinkanir höfðu orðið í lestarkerfinu (þar fór klisjan um nákvæmni þeirra innfæddu) og ferðir höfðu verið sameinaðar í þessa lest. Fari það í illa brasaða brattwurst, við þurftum ekki þá ekki að taka þátt í þessu spretthlaupi eftir allt saman!

Þegar komið var til Frankfurt mættu okkur sveit lögreglumanna og kvenna sem virtust þurfa að hafa auga með treflaklæddum fótboltabullum sem virtust fanga sigri á einhverjum andstæðingum þetta kvöld. Leigubíllinn á hótelið var hreinlega stærsti öskubakki sem við höfum komið í, slíkur var anganinn hjá karlkvölinni sem skutlaði okkur. Það að taka síðasta innsogið og skila því síðan inn í bílinn er nú kannski ekki rétta aðferðin til að halda reyknum utandyra!

Í dag verður haldið af stað frá Þýskalandi í næsta legg, meira um það síðar. Þó er rétt að taka fram að Halldóra er búin að pakka vettlingunum, húfunni og prjónakjólnum neðst í bakpokann :-)

1 ummæli:

  1. Njótið elsku vinir. Hlakka til að fylgjast með ævintýrinu ykkar😘

    SvaraEyða

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...