föstudagur, 17. febrúar 2023

MB23 - 2. kafli - Indlandshaf

Frankfurt, 8. febrúar

Við (HH og ULE) biðum eftir flugrútunni með alla 4 bakpokana á herðunum. Loks mætti rútan, en ekki sjéns að fá far nema að framvísa "coins" frá hótelinu. Þýska þjónustulundin lét ekki að sér hæða, til hvers að nefna einhvert fargjald við gestina þó þeir spyrji um flugrútuna. Rútubílstjórinn sagði þetta ekkert mál, við skyldum hlaupa af stað og sækja hina merkilegu mynt og hann gæti pikkað okkur upp, hinum megin við götuna, beint á móti hótelinu sem við vorum á.

Við fórum inn á hótelið og tókum við myntinni (sem reyndar leit út fyrir að vera plast úr einhverju borðspili) úr hendi skömmustulegra hótelstarfsmanna. 

Við drifum okkur út, yfir götuna og sáum að rútan var að nálgast, þetta yrði í fínu lagi. Rútan renndi upp að, bílstjórinn tók við þýska "rútubílagjaldeyrinum" og við héldum inn eftir rútunni. Nú skyldi brunað út á völl.

Um leið og við settumst í sætin drap bílstjórinni á vélinni, fór út og fékk sér kaffi og sígó og ræddi við vin sinn sem bar þarna að. Við sitjandi ein í rútunni fengum hláturskast, ekki annað hægt, héldum að hann væri á hraðferð miðað við "planið" sem kallinn setti upp. Eftir um 15 mínútur kom hann aftur og hélt af stað.

Flugstöðin er Frankfurt er býsna stór, sú fjórða í röðinni í Evrópu. Vesalings áttavitinn í HH, sem hingað til hefur reynst nánast óskeikull, dansaði pólanna á milli og fann alls ekki hvar "vopnaleitin" var. ULE ákvað að halda sig til hlés, því eins og allir vita er betra að vera hamingjusamur en að hafa rétt fyrir sér.

En sem betur fer kvað við annan þjónustutón innan flugstöðvarinnar en utan hennar. Góðar leiðbeiningar starfsmanna leiddu okkur um ótrúlega langa ganga stöðvarinnar og í gegnum leitina. 

Eftir okkur beið glæný Airbus 330-900 NEO vél í flottum litum hjá Condor Airline (stofnað 1955).

Stefnan var sett á Maldives, eyjaklasa í Indlandshafi, Suður-Asíu. Eyjarnar eru um 1.200 talsins, en búið er á um 190 þeirra. Langflestir búa á Malé eða um 250.000 manns, en eyjan er aðeins 8 ferkílómetrar að stærð, en Kópavogur t.d. er 10 sinnum stærri eða 80 ferkílómetrar. Svo virðist sem nú sé verið að rífa eldri hús á eyjunni og byggja háhýsi í staðinn. 

Maldíveyjar eru í mikilli hættu á að hverfa í sæ í náinni framtíð vegna hækkunar sjávar. Eyjaskeggjar eru alls um 520.000 talsins á þessum ca. 190 eyjum og víða er þröngt um íbúana.

Þetta var næturflug, 10 tímar, af stað um 21.00 og lent að staðartíma kl. 11.00, tímamismunur 4 tímar. Flugið var mjög þægilegt, minnti á gamla þjónustustigið hjá íslenska félaginu, matur, drykkir, teppi, koddar og alles innifalið. Mælum með Condor fyrir þá sem vilja ferðast.

Við lendingu sáum við að flugstöðin var svolítið eins og KEF var í denn, lítil sem engin hætta á að áttavitinn myndi ekki virka sem skyldi.

Töskurnar komu fljótlega og á töskunni hjá ULE voru allnokkrir rauðir miðar sem virtust þýða að þennan stórhættulega bakpoka varð að skoða nánar.

ULE fór með bakpokann til tollvarða sem skönnuðu hann gaumgæfilega. "Hello sir, we have to look in your bag". Nú já, hvað er málið?, sagði ULE. "What?, sagði ung einkennisklædd kona. Æ, ég meina "why"? "You come and see, here on machine". Ok, hugsaði ULE sem var leiddur að skjánum hjá tollvörðunum. "What is this box here, is it alcoholic tablets????, You know bringing and consuming alcohol in this country is a crime!". "Ok", sagði ULE, "I will open the bag". ULE opnaði pokann, tók upp umbúðirnar sem áttu að innihalda töflurnar með alkahólvökvanum. Þetta er nú bara Magnesíum töflur, gott að örva aðeins meltinguna á erlendri grundu sjáðu til. "Sorry, sir, sorry, you can go", sagði unga kona og tók fyrir andlitið. Félagar hennar glottu stríðnislega í átt til mín.

Við hafnarbakkann beið hraðbátur eftir okkur með 3 x 250 hestafla mótora, alveg lágmarksafl auðvitað. Skipverjar sigldu okkur til eyjunnar Gulhi, þar sem við vorum búin að bóka gistingu. Báturinn kom við í höfuðstaðnum Malé og hélt svo til eyjunnar þar sem komið var að bryggju 30 mín síðar.

Sjórinn er alveg tær og hreinn við Maldíveyjar og mjög heitur. Sandurinn fínn og mjög ljós, nánast hvítur. Hitinn var yfirleitt 30 gráður að deginum og 28 um nætur.


Eyjan Gulhi er einkar smá, eins og áður segir, aðeins 400 m x 220 m að stærð. Engu að síður búa hér um 900 manns, auk hinna fjölmörgu gesta sem dvelja hér hverju sinni. Það er þéttbýlt á eyjunni litlu, húsin mörg hver hrörleg, en mikið um hús í byggingu og þá hærri byggingar, líklega mest hótelgisting.

Til Maldíveyja í heild koma um 1,6 milljón ferðamanna ár hvert, ekki svo ýkja langt frá fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim. Aðalatvinnuvegirnir eru fiskveiðar og ferðamennska.

Við fengum fylgd á gistihúsið okkar, Ocean Pearl, og settum töskurnar inn á herbergið. Auðvitað var haldið út á strönd, sem var í ca. 1 mínútu göngufjarlægð. Á flestum, ef ekki öllum ferðamannaeyjunum, er sérstök "Bikini" strönd þar sem löglegt er að spara við sig í klæðnaðinum. Þessi strönd er vinsæl hjá gestum á nágrannaeyjunum sem koma hingað og dvelja yfir daginn. 

Á ströndinni var alls konar fólk, ungt og gamalt, en engin tattóveraður eldri borgari á "Skúter" var sjáanlegur á þessum slóðum.

Engin sölumennska er á ströndinni og því heyrðum við ekkert : "Hello massage" - "Watermelon, ananas" - "Very good, very nice" - "Special price for you", söknuðum þess satt best að segja ekkert mjög mikið.

Á Maldíveyjum eru íbúarnir Íslamstrúar, enda er það bundið í lög að svo skuli vera. Moskur eru víða og bænastundir 5 sinnum á dag. ULE var feiminn að teyma skrattann, eins og afi hans gerði forðum, þegar við löbbuðum framhjá moskunni á Gulhi. HH mátti alls ekki ganga um sendnar götur þorpsins í bikini fatnaði.

Áfengi er bannað með öllu á eyjunum, nema á einhverjum "Resortum" auðvitað þar sem fjármagnið ræður för. Ef einhver er gripinn með brennivín eða skyldmenni þess er hart tekið á málum, ekkert hik á þeim bænum.

Enga klukku sáum við á Gulhi, allt var afgreitt í rólegheitunum og ekkert vesen, traust milli ferðamanna og íbúa var mikið og gott. Þjófnaður sjálfsagt afar fátíður, ef þá einhver.

Maldíveyjar eru fyrir þá sem vilja hægja á öllu og ekki líta á klukku, bara núvitund á ströndinni.

Við héldum frá Maldíveyjum þann 16. febrúar og flugum í austurátt í 4,5 klst með Air Asia. 

Flugið var svo sem ágætt, en HH fannst skrítið að það skyldi snjóa um borð í vélinni. Það kom í ljós á ULE hafði, eins og Íslending sæmir, farið of skart í sólbaðið fyrstu klukkustundirnar á Bikini ströndinni á Gulhi og því voru hamskipti komin á fullt þar sem DNA slóð var dreift yfir allt og alla, en það hlýtur að lagast á endanum.

Nú erum við komin til Tælands og verðum hér næstu 3 vikurnar áður en lengra er haldið. Fengum afnot af lúxusíbúð í gegnum danskt tengslanet, það kemur sér afar vel. Mange tak Lotte, Torben og Dan.







1 ummæli:

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...