föstudagur, 24. febrúar 2023

MB23 - 3. kafli - Thailand

Laugardagur, 25. febrúar 2023

Það er rúm vika liðin síðan við komum til Tælands frá Maldíveyjum. Brottfarardagurinn, 16. febrúar, frá Malé var svolítið spes. Við mættum 3 klukkustundum fyrir brottför og þurftum satt best að segja á þeim rúma tímaramma að halda. 

Við fórum í gegnum alls 4 raðir ýmiskonar sem tóku sinn tíma. Netsambandið í stöðinni var svipað og þegar maður reyndi að stilla á Rúv í Hitachi sjónvarpinu á sínum tíma, slitrótt með afbrigðum. Hvað með það, engin þörf á WiFi sambandi, bara tímaeyðsla, héldum við. Í 1. röðinni var allur farangur skannaður, 40 mín þar, hitinn mikill, engin loftkæling í stöðinni, takk fyrir það.

2. röðin var innritunin, ekkert mál, nema hvað að við þurftum að bóka flug frá Tælandi til að mega fara frá Maldíveyjum. Nú reyndi á nettenginguna góðu, eða þannig! Við hófumst handa við að bóka flug, en gekk brösulega. Loks tókst að bóka flugið þrátt fyrir að tengingin hafi dottið út nokkrum sinnum á meðan! Innritun klár.

Röð 3 var vegabréfseftirlitið og Imuga vottorðið, þetta voru aðrar 40 mín. 

4. röðin var síðan hefðbundin vopnaleit. Þarna var fólk farið að hlaupa um og kalla út um allt, enda orðið of seint í sitt flug, vegna seinagangs af betri gerðinni. Eitthvað var lítið um framlegð í verslununum flugstöðvarinnar þennan daginn að minnsta kosti.

AirAsia tók á loft á hárréttum tíma og flugið var bara fínt.  Allt gekk mjög hratt og örugglega fyrir sig eftir lendingu á Bangkok International flugvellinum, 20 mín og allar töskur klárar!

Bílstjórinn ók okkur svo í myrkrinu til Sam Roi Yot sem er staðsett til suðurs á vesturhluta Tælands í Beach Village hverfið þar sem íbúðina var að finna, eftir smá leit. Virkilega flott íbúð með huggulegu sundlaugarsvæði. Nú var mesti ferðahrollurinn úr okkur, höldum við!






Vikan hefur mest farið í afslöppun og stuttar ferðir á reiðhjólum um svæðið niður við ströndina. Ströndin er fín, en ekkert í líkingu við ströndina á Gulhi á Maldvíeyjum.

Hér í landi er allt mjög vestrænt, eins og við er að búast. Hér í Beach Village er lítið "gym" og svo er mjög næs að fá gott nudd í hitanum við ströndina, sem er 30+ yfir daginn og 24 á nóttunni. 

Við erum svolítið úti í sveit hérna, kýrnar með áberandi herðakamb, mikið fugla- og skordýralíf. Ávextirnir eru einkar góðir hérna, sérstaklega mangóið og ananasinn. Drykkir yfirleitt frekar ódýrir, bjór og gos, en léttvín fremur dýrt. 

Hér má yfirleitt ekki kaupa áfengi í verslunum á milli kl. 14.00 og 17.00 á daginn. Tæland er reyndar mjög spes að mörgu leyti, því margt er ólöglegt, sem þó er í fullum gangi fyrir allra augum!

Hér getur þú keypt fúkkalyf (sýklalyf), án lyfseðils í apótekum, þó þú hafir líklega enga hugmynd um hvaða lyf passar, bara eitthvað breiðvirkt takk!

23. febrúar er dánardagur Halldórs Elís, föðurs og tengdaföðurs okkar. Sá dagur var þungur og minningar leituðu á okkur, eins og við er að búast. Hugsum hlýlega til hans alla daga.

Fórum í gær, 24. febr, til Hua Hin, einkum til að skoða götumarkaðinn sem opnar kl. 18.00, alla daga. Hua Hin er nokkuð snyrtileg, enda er kóngurinn þeirra með aðsetur á svæðinu og því er reynt að pússa allt og bóna. Reyndar er hann ekki mikið heimavið, skilst okkur, meira upptekinn í Þýsklandi eða eitthvað..........

Ströndin var full af ferðafólki og mjög lík því sem við þekkjum frá sólarströndum í Evrópu. Miklu skynsamlegra að fljúga styttri vegalendir. Þar var líka hægt að fara á hestbak, furðulegt eiginlega, svona eins og að bjóða upp á hestabak í Hlíðarfjalli við Törfateppið eða eitthvað álíka. Hver væri ekki til í að skella sér á bak, jafnvel með brettið áfast!!


Það var mjög áberandi á þessu svæði, allur sá fjöldi vestrænna eldri karla með ungar konur upp á arminn. Þetta er nú svo sem á allra vitorði, en það bætir ekkert úr skák. 

Yfirleitt eru þetta karlar ca. 60-80 ára með konum á aldrinum 20-30 ára, virkilega dapurlegt að horfa upp á slíkt, enda í langflestum tilfellum verið að nýta sér bága félags- og fjárhagsstöðu þessara kvenna, þó einhverjir haldi eflaust öðru fram. Okkur skilst reyndar að ástandið í Pattaya, skammt frá Bangkok sé mun meira áberandi hvað þetta varðar. Það er hins vegar eitthvað minna um konur á aldrinum 60-80 ára í fylgd með ungum karlmönnum....






Við komumst líka að því að Tælendingar eru ekkert sérstaklega uppteknir af göllum í fasteignum, og einkum þá þeirra galla sem snúa að þakleka. Við Íslendingar þekkjum vel þá frábæru hugmynd að vera með flöt þök, sem reyndar breytast reglulega í sundlaugar annað slagið. Hver hefði nú gert ráð fyrir því!!

Hér virðist ekki alltaf vera sett vatnsvörn undir "gólfefnið" á þökunum og vatnshallinn dugar nú ekki alltaf þegar rignir hér duglega. Það er nefnilega svo að um 10 íbúðir hér í nágrenni við okkur glíma við þakleka, sem í einhverjum tilfellum hafa kallað á byrja aftur á fokheldisstiginu. 

En þetta stendur víst allt til bóta, á að laga á næstu vikum. Enginn leki hjá okkur, sem betur fer.

Við hjónin "eðlumst" reglulega í íbúðinni, engan æsing gott fólk, þetta eru eðluveiðar sem yfirleitt fara fram síðdegis og á kvöldin þegar þessi litlu sætu skriðdýr koma sér fyrir við, efst á veggjunum. Þá er ekkert annað í stöðunni en að beita hefðbundnum flugnaspaða og láta vaða, sorrý!

Frúin er dugleg við eldamennskuna, hefðbundin tælensk matargerð, spæsí og góð. Hér var Bolludagurinn haldinn hátíðlegur, fengum ofn lánaðan úr næstu íbúð og sultan og rjóminn á sínum stað.

Okkur var nú sagt að ekkert nauðsynlegt væri að læsa íbúðinni yfir daginn, svo við læstum þá bara ekkert. En dag nokkrun var búið að stela fínu Ray Ban sólgleraugum bóndans, ansans. Reyndar var engu öðru stolið, humm spes. En það tók okkur ekki langan tíma að þjófkenna hálft samfélagið hér, nágranna og starfsfólk. Frúin var nú raunar viss um að bóndinn hefði sjálfur gerst sekur um hvarfið. Hún hafði rétt fyrir sér, þau voru uppi á þakinu auðvitað, eftir skoðunarferð. Enginn þjófnaður á ferðinni og við báðumst afsökunar í hljóði, en læsum nú samt alltaf núna.


Þangað til næst!



föstudagur, 17. febrúar 2023

MB23 - 2. kafli - Indlandshaf

Frankfurt, 8. febrúar

Við (HH og ULE) biðum eftir flugrútunni með alla 4 bakpokana á herðunum. Loks mætti rútan, en ekki sjéns að fá far nema að framvísa "coins" frá hótelinu. Þýska þjónustulundin lét ekki að sér hæða, til hvers að nefna einhvert fargjald við gestina þó þeir spyrji um flugrútuna. Rútubílstjórinn sagði þetta ekkert mál, við skyldum hlaupa af stað og sækja hina merkilegu mynt og hann gæti pikkað okkur upp, hinum megin við götuna, beint á móti hótelinu sem við vorum á.

Við fórum inn á hótelið og tókum við myntinni (sem reyndar leit út fyrir að vera plast úr einhverju borðspili) úr hendi skömmustulegra hótelstarfsmanna. 

Við drifum okkur út, yfir götuna og sáum að rútan var að nálgast, þetta yrði í fínu lagi. Rútan renndi upp að, bílstjórinn tók við þýska "rútubílagjaldeyrinum" og við héldum inn eftir rútunni. Nú skyldi brunað út á völl.

Um leið og við settumst í sætin drap bílstjórinni á vélinni, fór út og fékk sér kaffi og sígó og ræddi við vin sinn sem bar þarna að. Við sitjandi ein í rútunni fengum hláturskast, ekki annað hægt, héldum að hann væri á hraðferð miðað við "planið" sem kallinn setti upp. Eftir um 15 mínútur kom hann aftur og hélt af stað.

Flugstöðin er Frankfurt er býsna stór, sú fjórða í röðinni í Evrópu. Vesalings áttavitinn í HH, sem hingað til hefur reynst nánast óskeikull, dansaði pólanna á milli og fann alls ekki hvar "vopnaleitin" var. ULE ákvað að halda sig til hlés, því eins og allir vita er betra að vera hamingjusamur en að hafa rétt fyrir sér.

En sem betur fer kvað við annan þjónustutón innan flugstöðvarinnar en utan hennar. Góðar leiðbeiningar starfsmanna leiddu okkur um ótrúlega langa ganga stöðvarinnar og í gegnum leitina. 

Eftir okkur beið glæný Airbus 330-900 NEO vél í flottum litum hjá Condor Airline (stofnað 1955).

Stefnan var sett á Maldives, eyjaklasa í Indlandshafi, Suður-Asíu. Eyjarnar eru um 1.200 talsins, en búið er á um 190 þeirra. Langflestir búa á Malé eða um 250.000 manns, en eyjan er aðeins 8 ferkílómetrar að stærð, en Kópavogur t.d. er 10 sinnum stærri eða 80 ferkílómetrar. Svo virðist sem nú sé verið að rífa eldri hús á eyjunni og byggja háhýsi í staðinn. 

Maldíveyjar eru í mikilli hættu á að hverfa í sæ í náinni framtíð vegna hækkunar sjávar. Eyjaskeggjar eru alls um 520.000 talsins á þessum ca. 190 eyjum og víða er þröngt um íbúana.

Þetta var næturflug, 10 tímar, af stað um 21.00 og lent að staðartíma kl. 11.00, tímamismunur 4 tímar. Flugið var mjög þægilegt, minnti á gamla þjónustustigið hjá íslenska félaginu, matur, drykkir, teppi, koddar og alles innifalið. Mælum með Condor fyrir þá sem vilja ferðast.

Við lendingu sáum við að flugstöðin var svolítið eins og KEF var í denn, lítil sem engin hætta á að áttavitinn myndi ekki virka sem skyldi.

Töskurnar komu fljótlega og á töskunni hjá ULE voru allnokkrir rauðir miðar sem virtust þýða að þennan stórhættulega bakpoka varð að skoða nánar.

ULE fór með bakpokann til tollvarða sem skönnuðu hann gaumgæfilega. "Hello sir, we have to look in your bag". Nú já, hvað er málið?, sagði ULE. "What?, sagði ung einkennisklædd kona. Æ, ég meina "why"? "You come and see, here on machine". Ok, hugsaði ULE sem var leiddur að skjánum hjá tollvörðunum. "What is this box here, is it alcoholic tablets????, You know bringing and consuming alcohol in this country is a crime!". "Ok", sagði ULE, "I will open the bag". ULE opnaði pokann, tók upp umbúðirnar sem áttu að innihalda töflurnar með alkahólvökvanum. Þetta er nú bara Magnesíum töflur, gott að örva aðeins meltinguna á erlendri grundu sjáðu til. "Sorry, sir, sorry, you can go", sagði unga kona og tók fyrir andlitið. Félagar hennar glottu stríðnislega í átt til mín.

Við hafnarbakkann beið hraðbátur eftir okkur með 3 x 250 hestafla mótora, alveg lágmarksafl auðvitað. Skipverjar sigldu okkur til eyjunnar Gulhi, þar sem við vorum búin að bóka gistingu. Báturinn kom við í höfuðstaðnum Malé og hélt svo til eyjunnar þar sem komið var að bryggju 30 mín síðar.

Sjórinn er alveg tær og hreinn við Maldíveyjar og mjög heitur. Sandurinn fínn og mjög ljós, nánast hvítur. Hitinn var yfirleitt 30 gráður að deginum og 28 um nætur.


Eyjan Gulhi er einkar smá, eins og áður segir, aðeins 400 m x 220 m að stærð. Engu að síður búa hér um 900 manns, auk hinna fjölmörgu gesta sem dvelja hér hverju sinni. Það er þéttbýlt á eyjunni litlu, húsin mörg hver hrörleg, en mikið um hús í byggingu og þá hærri byggingar, líklega mest hótelgisting.

Til Maldíveyja í heild koma um 1,6 milljón ferðamanna ár hvert, ekki svo ýkja langt frá fjölda ferðamanna sem sækja Ísland heim. Aðalatvinnuvegirnir eru fiskveiðar og ferðamennska.

Við fengum fylgd á gistihúsið okkar, Ocean Pearl, og settum töskurnar inn á herbergið. Auðvitað var haldið út á strönd, sem var í ca. 1 mínútu göngufjarlægð. Á flestum, ef ekki öllum ferðamannaeyjunum, er sérstök "Bikini" strönd þar sem löglegt er að spara við sig í klæðnaðinum. Þessi strönd er vinsæl hjá gestum á nágrannaeyjunum sem koma hingað og dvelja yfir daginn. 

Á ströndinni var alls konar fólk, ungt og gamalt, en engin tattóveraður eldri borgari á "Skúter" var sjáanlegur á þessum slóðum.

Engin sölumennska er á ströndinni og því heyrðum við ekkert : "Hello massage" - "Watermelon, ananas" - "Very good, very nice" - "Special price for you", söknuðum þess satt best að segja ekkert mjög mikið.

Á Maldíveyjum eru íbúarnir Íslamstrúar, enda er það bundið í lög að svo skuli vera. Moskur eru víða og bænastundir 5 sinnum á dag. ULE var feiminn að teyma skrattann, eins og afi hans gerði forðum, þegar við löbbuðum framhjá moskunni á Gulhi. HH mátti alls ekki ganga um sendnar götur þorpsins í bikini fatnaði.

Áfengi er bannað með öllu á eyjunum, nema á einhverjum "Resortum" auðvitað þar sem fjármagnið ræður för. Ef einhver er gripinn með brennivín eða skyldmenni þess er hart tekið á málum, ekkert hik á þeim bænum.

Enga klukku sáum við á Gulhi, allt var afgreitt í rólegheitunum og ekkert vesen, traust milli ferðamanna og íbúa var mikið og gott. Þjófnaður sjálfsagt afar fátíður, ef þá einhver.

Maldíveyjar eru fyrir þá sem vilja hægja á öllu og ekki líta á klukku, bara núvitund á ströndinni.

Við héldum frá Maldíveyjum þann 16. febrúar og flugum í austurátt í 4,5 klst með Air Asia. 

Flugið var svo sem ágætt, en HH fannst skrítið að það skyldi snjóa um borð í vélinni. Það kom í ljós á ULE hafði, eins og Íslending sæmir, farið of skart í sólbaðið fyrstu klukkustundirnar á Bikini ströndinni á Gulhi og því voru hamskipti komin á fullt þar sem DNA slóð var dreift yfir allt og alla, en það hlýtur að lagast á endanum.

Nú erum við komin til Tælands og verðum hér næstu 3 vikurnar áður en lengra er haldið. Fengum afnot af lúxusíbúð í gegnum danskt tengslanet, það kemur sér afar vel. Mange tak Lotte, Torben og Dan.







miðvikudagur, 8. febrúar 2023

MB23 - 1. kafli - Ísland - Danmörk - Þýskaland

Miðaldra bakpokar 2023 (MB23)

3. feb - 5. feb

Föstudagurinn 3. febrúar runninn upp og tími til kominn að halda af stað í reisuna miklu, eftir nokkurn undirbúning. 

Eftir að hafa loks lokið við endurgerð íbúðarinnar hjá litlu fjölskyldunni á Vesturvallagötunni, sem tók meira en 1 ár, var ræs kl. 03.00. Áslaug Guðný skutlaði svefndrukknum foreldrum sínum á BSÍ þar sem við slógumst í för með erlendum ferðamönnum sem virtust hafa fengið nóg af veðursældinni á Fróni. 

Fluginu með Play til Köben hafði verið flýtt vegna yfirvofandi óveðurs sem endilega vildi heimsækja landið, þrátt fyrir að gestgjafarnir séu nú löngu búnir að fá nóg af slíkum heimsóknum. 

Í skiptum fyrir blessað óveðrið fengum við hressilegan byr í seglin og vorum ekki nema rúma 2 tíma til Köben. Mælum ekki með Burger King á Kastrup, fáið ykkur bara brauð í fljótandi formi í staðinn, það klikkar yfirleitt ekki hjá Dananum. 

Eftir 4 klst. lestarferð til Silkeborg tók Halldór Friðrik brosandi á móti okkur. Við gistum hjá honum og Mai á Edwaldsgötunni í Silkeborg sem staðsett er í friðsælu og notalegu hverfi. Halldór starfar sem línustjóri í vöruhúsi hjá Söstrene Grene og Mai vinnur á flottum leikskóla í nágrenninu. Þau stefna svo á nám í náinni framtíð. Verðum gaman að fylgjast með hvernig þeim gengur. Takk fyrir frábærar móttökur Mai og Halldór!!

Í Silkeborg var farið í langa og stutta göngutúra. m.a. til Silkeborg Bad þar sem við skoðuðum neðanjarðarbyrgi sem Þjóðverjar byggðu og notuðu í seinni heimstyrjöldinni á tímabilinu 1943-1945 til að verjast bandamönnum. Staðsetningin var líka hentug fyrir þá til að eiga möguleika á að hörfa til suðurs í átt til heimalandins. 

Þar sem þorrinn stendur sem hæst í Íslandi þá var auðvitað haft meðferðis hákarl, harðfiskur, flatkökur með hangiketi og ískalt brennivín til að leyfa innfæddum að smakka. Þau Lotte og Torben, mamma og fósturpabbi Mai, komu í heimsókn og smökkuðu herlegheitin og líkaði vel! Sérstaklega þótti þeim flatkökurnar og hangiketið gott. 

Við tókum auðvitað með okkur rammíslenskt kvef yfir hafið og erum að vinna að þvi að losna við það, smátt og smátt!

6. feb - 8. feb

Þann 6. febrúar var lagt af stað frá Silkeborg til Flensborgar til Slesvíkur og Hostein sem Danir áttu nú lengi vel. Halldór og Mai vildu endilega skulta okkur þangað og var það vel þegið. Við þvældumst svolítið um borgina og Halldór og Mai nýttu sér tækifærið eins og sönnum Dönum/Íslendingum sæmir og versluðu grimmt við landamærin og héldu svo til baka. 



7. febrúar - Nú var komið það því að halda sunnar á bóginn, en auðvitað var höfnin í Flensborg skoðuð og fengið sér hressingu á litlu veitingahúsi við höfnina. Það er heldur napurt þennan dag og því kærkomið að fá sér súpu hjá þeim þýsku. Súpan var reyndar einstaklega bragðvond, því ekki áttum við von á því að sviðasultubragð gæti átt heima í þýskri lauk/hakk súpu, en það var nú samt raunin. Kannski var þetta bara fínt, þorrinn í gangi og svona.

Þá var nú komið að því að taka næstu lest frá Flensborg til Frankfurt. Ekki leist okkur á tímarammann sem okkur var gefinn til að skipta um lest í Hamborg (þar sem frúin býr, er það ekki?). Tíminn var 8 mínútur og við uppfull af klisjunni um nákvæmni þýskra borgara. Ekki bætti úr skák að lestin til Hamborgar seinkaði um 4 mínútur og því gerðum við okkur klár eins og sannir ungmennafélagsiðkendur, sprettur með alla bakpokana framundan. Hvaða spor áttum við að mæta á, nr. 13 var það ekki? Jú, það stemmir. Um leið og lestin stoppaði, ýtum við þreytulegum skrifstofublókum úr vegi og olboguðum okkur út og inn á stöðina.  

Kappið bar okkur eiginlega ofurliði, fórum í þveröfuga átt, en vorum fljót að átta okkur og hlupum upp og niður stiga og inn á nr. 13, 2 mín fyrir áætlaðan brottfarartíma, glæsilegt var nú hlaupið ekki með sveiflukenndum bakpokum, en það dugði. En á spori 13 var lest sem var alls ekki að fara til Frankfurt. 

Við hliðina, á spori 14, var hins vegar lest sem var greinilega á leið til Karlsruhe sem er sunnan við Frankfurt og því líklegt að hún myndi duga okkur. Við fórum um borð þrátt fyrir annað lestarnúmer, annan brottfarartíma og annað spor. Við létum bara slag standa og vildu sjá til hvort þetta væri ekki bara rétta lestin, þrátt fyrir að nánast allt annað benti ekki til þess. Erfðafræðileg Selsþrjóska varð til þess að setið var sem fastast. Í ljós kom að miklar seinkanir höfðu orðið í lestarkerfinu (þar fór klisjan um nákvæmni þeirra innfæddu) og ferðir höfðu verið sameinaðar í þessa lest. Fari það í illa brasaða brattwurst, við þurftum ekki þá ekki að taka þátt í þessu spretthlaupi eftir allt saman!

Þegar komið var til Frankfurt mættu okkur sveit lögreglumanna og kvenna sem virtust þurfa að hafa auga með treflaklæddum fótboltabullum sem virtust fanga sigri á einhverjum andstæðingum þetta kvöld. Leigubíllinn á hótelið var hreinlega stærsti öskubakki sem við höfum komið í, slíkur var anganinn hjá karlkvölinni sem skutlaði okkur. Það að taka síðasta innsogið og skila því síðan inn í bílinn er nú kannski ekki rétta aðferðin til að halda reyknum utandyra!

Í dag verður haldið af stað frá Þýskalandi í næsta legg, meira um það síðar. Þó er rétt að taka fram að Halldóra er búin að pakka vettlingunum, húfunni og prjónakjólnum neðst í bakpokann :-)

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...