miðvikudagur, 26. apríl 2023

MB23 - 21. kafli - Boise Idaho

 22. - 26. apríl

Idaho - kartöfluríkið mikla

Flugið frá San Fransico gekk vel í litlu flugvélinni hjá Alaska Airlines. Þetta var stutt flug, aðeins rúm klukkustund. Við flugum yfir nokkra fjallgarða þar sem töluvert var  af snjó og eflaust einhverjir á skíðum.

Boise er höfuðstaður Idaho fylkis með um 250.000 íbúa í borginni sjálfri og rúmlega 700.000 manns á svæðinum þar í kring.

Idaho er sannarlega kartöfluríki USA þar sem það framleiðir 1/3 af heildarframleiðslunni sem telst vera rúmlega 6 milljónir tonna af kartöflum á 300.000 ekrum lands (120.000 hektarar). Uppskeran er þannig um 50 tonn á hvern hektara lands, til samanburðar er uppskeran um og yfir 20 tonn/hektara á Íslandi (lauslega athugað). Uppskeran er yfirleitt á tímabilinu ágúst - október og magnið ansi mikið.

Idaho sér nefnilega McDonalds fyrir allri kartöfluþörf þess stóra skyndibitafyrirtækis, svona til að tryggja líka einsleitnina.


En hvers vegna til Boise?

Það kann einhver að velta því fyrir sér, enda kannski ekki vinsæll áfangastaður Íslendinga á ferðalögum um USA. Ástæðan er sú að á Moorea í Frönsku Pólýníseu kynnumst við fjölskyldu frá Bosie sem einhvern veginn var á sömu bylgjulengd og við.

Við náðum mjög vel saman og spjölluðum mikið í grillveislunni á litlu sandeyjunni við Moorea þar sem skötur, fiskar og hákarlar lónuðu í sjónum fyrir utan.

Þau heita Corby og Heather og eiga þrjá stráka sem allir eru undir 10 ára aldri. Þau starfa sem fasteignasalar, en Heather skipti yfir í þann vettvang, eftir að hafa starfað sem kennari um langt skeið.

Við sögðum þeim af ferðalagi okkar og hvert förinni væri heitir eftir Hawaii, þ.e. til San Francisco. Eftir það værum við með nokkra daga sem ekki væri búið að plana mikið. Úr varð að þau buðu okkur gistingu í íbúðum sem þau eiga í Boise og þáðum við það með þökkum.

Þau sögðust lengi hafa ætlað til Íslands og ef til vill yrði þessi vinskapur til þess.

Við leigðum okkur bíl á flugvellinum og það er óhætt að segja að nokkurt ryð var sest á aksturskunnáttuna hjá okkur, eftir að hafa verið laus við aksturinn í margar vikur, en það kom fljótt. Að kaupa bensín var líka nýtt fyrir okkur, enda átt rafbíla í 5 ár.

Náttúrufegurð - Greenbelt og fjallendið

Boise stendur við fjalllendi og er mikið um þjóðgarða og aðra almenningsgarða á svæðinu. Við gengum fyrsta daginn um hið svo kallaða "Greenbelt" sem er mjög stórt svæði meðfram ánni sem rennur í gegnum borgina. Þar er hægt að ganga, hlaupa og hjóla um mjög langa stíga sem liggja um svæðið. 

Raunar var þetta svæði mýrlendi, en fyrir nokkrum árum var ráðist í mjög miklar framkvæmdir til að gera svæðið aðgengilegt og fallegt. Steyptir göngustígar, brýr, grjóthleðslur, aðstöðuhús og veitingastaðir prýða svæðið sem er einkar fallegt að sjá og fara um.


Við gengum líka um fjallendi (Camel´s back) um 7 km leið þar sem hægt var að sjá yfir borgina og fylgjast með dýralífinu á svæðinu. Þarna voru líka mjög stór íbúðarhús í hæðunum sem sjálfsagt kosta eitthvað meira en gengur og gerist annarsstaðar á svæðinu.



Svo var gengið um borgina og þannig urðu þetta 10 km í heildina.

Vínhéraðið við Boise - Sunny Valley

Fyrir utan borgina er töluvert um vínrækt og ekki þótti annað hægt en að frúin fengi bílstjóra sem gæti lóðsað hana um vínræktarhéruðin í smá smakk og með því.

Eftir að hafa rannsakað málið var ákveðið að skoða tvö fyrirtæki, Sawtooth og Hat Ranch. Þetta eru fjölskyldufyriræki sem ýmist framleiða vín úr eigin ræktun eða með því að fá hráefnið frá nálægum bændum.

Hjá Sawtooth hafði freyðivínið vinninginn og hjá Hat Ranch var það hvítvínið frá árinu 2021 sem raunar vann til ótal verðlauna. Idaho er greinilega að vaxa sem vínræktarríki.




Covid skilaði kannski einhverju nytsamlegu

Bosie er róleg borg. Þar er samfélagið öllu frjálslyndara en gengur og gerist í fylkinu almennt. Borgin er mjög snyrtileg og alla þjónustu að finna. Mjög stór "Gay bar" er við göngugötuna á 8. stræti og þar er greinilega mikið fjör á kvöldin, a.m.k var það svo þegar við gengum þar framhjá á sunnudagskvöldið.

Göngugatan er raunar tilkomin vegna lokana sem áttu sér stað í Covid faraldrinum. Borgaryfirvöld ákváðu að loka hluta 8. strætis til þess að gefa rekstraraðilum veitingahúsa tækifæri til að fá meira rými fyrir borð á útisvæði til að tryggja fjarlægð milli gesta. Eftir að faraldrinum lauk að mestu og tilslakanir tóku gildi var ákveðið að opna ekki götuna fyrir bílaumferð og hefur það fallið vel í kramið. Við fórum oft um þessa götu og óhætt er að segja að þarna er mikið og gott mannlíf sem blómstrar vel, laust við bílaumferð uppvið veitingastaði og verslanir.


Veðurfar

Á svæðinu ríkir eyðurmerkurloftslag, kalt yfir nóttina og svo hlýnar skart yfir daginn. Í morgun var hitinn um 4 gráður, en var kominn í 20 gráður eftir hádegið. Hér er farið að vora og greinilegt að gróðurinn er í spretthlaupi við að grænka og laufgast. Um næstu helgi, undir lok apríl, er spáð um 30 stiga hita yfir hádaginn.


Breaking Bosie - Freak Alley Gallery

Aaron Paul, annar aðalleikari þáttanna um efnafræðikennarann seinheppna Walter White, leikur Jesse Pinkman í þáttunum. Aaron Paul er frá Boise og þess má finna merki í þessu skemmtilega húsasundi.

Í húsasundinu sem nefnist "Freak Alley Gallery" er einstaklingum sem eru "Graffiti" listafólk boðið að sjá um að gera vegglistaverk. Sundið breytist reglulega þar sem myndirnar standa ekki mjög lengi, aðeins um nokkurra vikna skeið.

Þetta eru auðvitað allskonar listaverk úr ýmsum áttum, mjög skrautleg og vel gerð. Ekki er að sjá að aðrir finni þörf fyrir að eyðileggja listaverkin, heldur fá þau að standa óskemmd.





Nú sitjum við á flugvellinum og bíðum eftir 15. fluginu á ferðlagi okkar, smá seinkun. Förinni er heitið til Nevada og Arizona.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...