þriðjudagur, 9. maí 2023

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí

Las Vegas - Syracuse

Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöllum. 

Við komuna til Syracuse tóku Don og Dianne brosandi á móti okkur, hafa lítið breyst síðan við komum hingað síðast árið 2015.

Í apríl 1993, kom frúin hún Halldóra til þeirra sem au pair og sá um strákinn þeirra, hann Pete, þar til í lok janúar 1994. Því voru 30 ár liðin frá fyrsta fundi þeirra. Nokkuð sem óhætt væri að halda upp á!

Við ókum frá borginni til íverustaðarins við Tuscarora vatn í Erieville þar sem nýuppgert og stækkað íbúðarhús þeirra Don og Dianne er að finna. Mjög fallegt hús í alla staði og allt umhverfið mjög skemmtilegt, bátar og litlar bryggjur, hringinn í kringum vatnið.

Húsið er æskuheimili Don og er hann því kominn aftur á heimaslóðir, eftir rúmlega 40 ára fjarveru í hinum ýmsu borgum og bæjum í Bandaríkjunum.

Don er hættur störfum fyrir nokkrum árum, en hann vann aðallega við læknisfræðileg rannsóknarstörf þar sem áherslan var á virkni próteina í eyrum sem og taugalæknisfræði, en Don er menntaður í læknisfræði og verkfræði.

Dianne er einnig læknisfræðimenntuð og hefur alla tíð starfað sem réttarlæknir/réttameinafræðingur og vinnur enn 8 daga í mánuði, komin fast að áttræðu. Dianne er ennþá mjög áhugasöm um þetta sérstæða starf sem hún hefur með höndum. Margar sögur og furðustaðreyndir fengum við að heyra af þeim vettvangi.

Vatnið við heimili þeirra hjóna er raunar uppistöðulón sem búið var til seint á 19. öld, en fyrir þann tíma var þarna að finna mikið mýrlendi, eins og víðar á þessu svæði.

Það rigndi nokkuð þegar við komum og hafði rignt á þessu svæði undanfarnar vikur. Því var vatnsstaðan í vatninu há og mikið vatn í öllum skurðum. Það var heldur kalt, 2 til 8 gráður, en gott fyrir okkur að venjast aftur breyttu hitistigi.

Þau hjúin eru búin að fá sér tvo ferfætlinga, labrador systurnar Maggie og Morty, sem eru einkar fjörugar, enda ungar að árum.

Við fórum með þær í göngutúra flesta morgna og voru þær mjög ánægðar með gönguna, þrátt fyrir að mæta öðrum hundum á svæðinu með tilheyrandi átökum fyrir "gönguforeldrana".




Ernie og Dianne

Don fór með okkur til þeirra Ernie og Dianne sem búa skammt frá. Þar fengum við að skoða verkstæðið hjá Ernie sem er þúsundþjalasmiður. Hann er kominn á eftirlaun og ver tíma sínum gjarnan á verkstæðinu við handverksgerð og þá aðallega við að búa til hnífa sem eru mjög fallegir með flóknu munstri á hnífsblaðinu. 

Stálið er marghert og mikill tími fer í gerð hvers hnífar fyrir sig. Hnífarnir eru ekki til sölu, enda fara um 100 klst. í gerð hvers þeirra. Kona hans, Dianne, á víst nóg af hnífum í eldhúsinu og verður ekki uppiskroppa með þá við matargerðina.



Lake Placid - Adirondack fjallasvæðið

Þau hjúin höfðu pantað gistingu í fjallakofa norðarlega í fylkinu í nágrennið við bæinn Lake Placid sem er í um 4 klst akstursfjarlægð frá Erieville.

Það er mikill fjöldi stöðuvatna á þessu svæði og sýndist okkur að skortur hafi myndast á örnefnum þar sem einhver þeirra hétu 1. vatn, 2. vatn, 3. vatn, allt upp í 9. vatn. Sem betur fer er örnefnaskortur ekki nokkuð sem við þurfum að óttast á okkar ylhýra, við bara endurnýtum.

Lake Placid er í raun fjallabær þar sem mörg stöðuvötn er að finna og sömuleiðis sumarhús af ýmsum gerðum og stærðum. Á þessu svæði hafa verið haldnir tvennir vertrarólympuleikar, árið 1932 og 1980. Fjöldinn allur af mannvirkjum frá þessum leikum eru ennþá í notkun, t.d. skíðastökkpallar og sleðabrautir (bobslades). Fjöldi hótela og veitingastaða er þarna að finna og sjálft ólympíuþorpið.



Eftir rúmlega 4 tíma akstur komum við á svæðið og könnuðum hvar gistinguna væri að finna. Þeim Don og Dianne hafði verið sagt að allt væri uppbókað á hótelinu sjálfu (The Logde), en þegar við komum í skálann var engan starfsmann að finna og þar stóð að sá hinn sami væri væntanlegur um kl. 6.30 næsta morgun! Við ákváðum að fara inn í setustofuna þar sem á okkar vegi varð heldur einmannalegur eldri maður. Hans sagðist líklega vera eini gesturinn á hótelinu og að morgunmaturinn væri ekki fyrir félagslynt fólk. 

Skýringin var sú að ekki var allt uppbókað, bara undirmannað!

Við fundum svo lykil og upplýsingar um staðsetningu á húsinu sem við áttum bókað. Eftir nokkra leit fundum við húsið og komum okkur fyrir.

Þegar inn var komið var ljóst að engin rúmföt né handklæði var þar að finna. Nú voru góð ráð dýr, áttum við að "krassa" inn á herbergi í "Lodginu" eða hvað? Don og Dianne tóku sig til og "rændu" úr línsherberginu í "Lodginu" og fóru með yfir í húsið til okkar. Eftir komuna þangað sáu þau reyndar að við áttum að hafa þetta með okkur frá heiman, en hvernig getur einn maður vitað allt, sagði Don.

Mt. Jo

Næsta dag var haldið í fjallgöngu upp á lítið fjall, Mt. Jo. Við hjúin héldum upp á undan þeim eldri og gekk vel. Ákveðið var að fara bröttu leiðina upp og þá aflíðandi niður.

Mikil bleyta var eftir rigningar undanfarnar vikur, en okkur sóttist gangan vel. Fjallið er um 3.000 fet á hæð, en það er reyndar ekki rosa hátt í metrum, svo við skulum halda okkur við fetin. Fjöldinn allur af trjám hafði fallið á gönguleiðina eftir vetrarveðrin og því ærinn starfi fyrir höndum hjá skálavörðum svæðisins við að hreinsa gönguleiðir fyrir komandi sumar.




Við lukum göngunni á 1 klst. og 40 mín og biðum þeirra er hægar fóru yfir. Þau skiluðu sér loks í skála, 2 klst. og 15 mín á eftir okkur. 

Við héldum til Lake Placid og snæddum einkar góðan kvöldverð á ítölskum stað í boði þeirra hjóna.

Af bátastússi og grasslætti.

Don er mikill báta- og bryggjukall. Við húsið þeirra er lítil bryggja og aðstaða fyrir litla báta og kænur.

Bóndinn var ekki lengi að benda Don á þá áratuga löngu reynslu sem viðkomandi býr yfir á þessu sviði, allt frá Breiðafirði til uppsveita Árnessýslu. Því var ákveðið að "vatnssetja" hraðbátinn við fyrsta tækifæri. Áður en að því yrði varð Don að fá andrými til að græja allskonar og ýmislegt. Því fór svo að sá reyndi fékk kajak til að skvettast um uppistöðulónið  á meðan.

Don og bóndinn tóku til hendinni og komu lítilli lyftu í vatninu við bryggjuna sem þjóna ætti hraðbátnum og einnig tröppum við enda bryggjunnar. Sá íslenski hélt reyndar að jeppi þeirra hjóna ætti að ýta bátnum út í vatnið með hlunnförum, en það er greinilega ekki alþjóðleg aðferð!

Frúin fékk John Deere sláttuvél í hendurnar og gekk grasslátturinn vel, þó svo að sláttuvélin væri af eldri gerðinni. Slátturinn gekk vel og ljóst að reynslubankinn var til staðar.

Mótorinn á hraðbátnum, Yamaha árg. 1980, var skoðaður, en þeim íslenska fannst eitthvað ekki  í lagi

 



með þann japanska og taldi rétt að fara varlega í sakirnar næsta dag.
Eftir ekta BBQ á ameríska vísu var ákveðið að halda af stað á hraðbátnum góða, út á vatnið. Bóndanum íslenska fannst reykjarsvælan heldur mikil og bað ameríska bóndann um að draga úr ferðinni, en það var um seinann. Mótorinn ákvað að hætta allri þjónustu við bátsverja og drap á sér.


Aðeins ein lítil ár var um borð og vindur nokkur á vatninu. Úr varð að þau íslensku tóku að sér svokallaðan skiptiróður til að koma bátsverjum í land. Það tók tæpan hálftíma, en reddaðist á endanum.

Næstu nótt var haldið út á völl í Syracuse og þaðan flogið til Boston.

Boston og heim.

Boston er falleg borg og margt þar að finna. Google bíllinn (aka Hallóra H.) var ekki lengi að finna hvernig í deiliskipulaginu lá og var fljót að benda hingað og þangað, út og suður, niður að barnum góða, Cheers!!



Eftir að hafa ráfað um miðborg og hafnarsvæði borgarinnar, með tilheyrandi verslunarveseni, gengum um og yfir 10. km. báða dagana enda margt skemmtilegt að sjá, Boston iðaði af lífi og gaf okkur góða tilfinningu og nær í topp þrjá af borgunum sem við sóttum heim í þessari reisu.


 



Hlökkum til að koma heim, eftir rúmlega 3ja mánaða ferðalag.

Mikið var notalegt að koma heim, eftir 18 flug, 11 lönd, 15 stórborgir, 5 eyjar og svo allsskonar annað merkilegt, skemmtilegt og skrítið.


Hver vegur að heiman er vegurinn heim!















Engin ummæli:

Skrifa ummæli

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...