fimmtudagur, 30. mars 2023

MB23 - 15. kafli - Sydney til Papeete - Af visa veseni og uppfærslu

Visa transit vesen

Við gistum í Sydney á hostelinu "The Pod" sem er í miðbænum, ekki langt frá höfninni. Þetta er kojugisting þar sem hvert herbergi rúmar 8 manns. Kojurnar eru að vísu lokaðar, en ekki er annað hægt en að nýta sér blessuðu eyrnatappana ef vel á að vera. Ekki fyrir miðaldra fólk......

En ULE náði sér í eitthvert kvef á leið sinni um Asíu og það var erfitt fyrir hann að hafa hljótt, hóstandi, hnerrandi og snýtandi. Lítið var um svefn hjá karli og eflaust öðrum líka, nema ef tapparnir voru góðir.

Um morguninn, 28. mars, fór ULE að velta fyrir sér hvort ekki þyrfti að sækja um eitthvað hjá Nýsjálendingum, þeir væru annálaðir fyrir að taka málin föstum tökum eins og mátti sjá í covidinu.

"Visa transit", sagði ULE við HH. "Hvað þá?", sagði HH. "Við verðum að sækja um leyfi til að sitja í flughöfninni, án þess að fara inn í landið, til að bíða eftir næsta flugi"!

Allt var sett í gang og að lokum fundum við rétta appið til að sækja um og greiða smáræði fyrir, auðvitað. Einnig var hægt að sækja um á vefsíðu þar sem lofað var afgreiðslu samdægurs fyrir "aðeins", 330USD, eða um 46.000 kr., algjört gjafverð.

Við tókum þá ákvörðun að nota appið, við hefðum þó ca. 20 klst. áður en flugið átti að fara að stað, það hlyti að duga. 

ULE fékk samþykki nær samstundis, en HH var á bið (Pending). Tíminn leið og ekkert breytist hjá HH. Við sváfum lítið, enda fékk HH póst um að reyna alls ekki að ferðast til Nýja-Sjálands á meðan leyfið lægi ekki fyrir.

Um morguninn, kl. 5.30, héldum við út á völl, þrátt fyrir að HH væri ekki komin með leyfið. Við gerðum ráð fyrir að vera stoppuð í innrituninni og HH þyrfti að finna nýtt flug einhvern tíma síðar. ULE færi þá í flugið einn og HH kæmi þá bara síðar, eftir að fara aftur niður í bæ og í allar rándýru merkjabúðirnar!

Við gátum ekki skráð okkur inn í gegnum sjálfsafgreiðsluna á vellinum og héldum því að innritunarborðinu. Við tók erfið bið, því eitthvað virkaði ekki í sambandi við vegabréfið hjá HH. Konan, sem var afskaplega viðkunnaleg, fór afsíðis með vegabréfið. Úff, hvað gerum við nú?, hugsuðum við.

Hún kom aftur, löngu síðar að okkur fannst, og byrjaði aftur að bisast við tölvuna. HH var ennþá á "Pending" í árituninni og ákvað að skýra frá málinu skjálfandi röddu og fölgræn í framan. 

Konan leit upp og sagði: "Er visað ykkar samþykkt eða er það á Pending (í ferli)"?. HH sagði döpur að það væri ósamþykkt (Pending). THAT´S FINE! sagði hún.

HA, er það í lagi? sagði HH og seig niður um leið og viðkunnalega konan brosti fallega til hennar og staðfesti að nóg væri að sækja um og greiða, enginn væri að fara að stoppa okkur.

Púff, þarna munaði mjóu eða ekki! Svefnlaus nóttin horfði aftan í hnakkann á okkur, með kvikindislegu augnaráði. Þegar inn í flugstöðina var komið, kom uppfærsla frá yfirvöldum; HH fékk leyfið, eftir að hafa skráð sig inn, mjög skondið.

Við höfum komist að því að kröfur um visa, hvort sem er visa inn í landið eða bara "sófa visa" til að bíða eftir næsta flugi, en ákaflega misjafnar á milli landa, sum lönd gera enga kröfu á meðan önnur vilja endalausar umsóknir. Sumir með app aðrir ekki. Allt frekar ruglingslegt.

Flughöfnin í Sydney var mjög ólík öllum öðrum á okkar leið. Vel hönnuð, hljóðvist góð og allt rólegt í yfirbragði. Enginn hamrandi á tilkynningabjölluna (DING - DING - DING í hækkandi tónstiga) og svo últraskær rödd: (ALL PASSENGER........) og svo aftur (DING - DING - DING í lækkandi tónstiga). 

Nei, engin bjalla, bara svona ómþýð rödd sem talaði mjög yfirvegað og sagði t.d. í lokaútkallstilkynningunni:

"Jón Jónsson, taktu eftir. Flugvélin þín er tilbúin til brottfarar og allir hinir farþegarnir eru komnir í vélina og eru að bíða eftir þér". 

Það var heldur enginn á hlaupum, líkt og var í Malasíu. Öll almenn rými voru aðlaðandi, nóg af borðum, stólum, sófum og innstungum. Allt starfsfólkið yfirvegað og brosandi.

Flugið frá Sydney til Nýja-Sjálands (Auckland) gekk vel, en einhver smá seinkun. 

Nýja-Sjáland er, eins og margir vita, líkt Íslandi í landslagi. Við sáum aðeins landið í gegnum glugga flughafnarinnar og fannst það minna okkur á Skotland og Ísland í bland.

Í Auckland fékk yfirfararstjórinn HH tilkynningu um uppfærslu á sætum okkar, yfir í Premium. Við vissum í raun ekkert hvað það þýddi, en fórum og sóttum okkur nýja passa í vélina.


Þegar í vélina kom beið okkar koddi, teppi, vatn, tannbursti, nýjir sokkar, hægindastóll og matur og drykkur eins og við vildum. Við ákváðum að taka 3ja rétta kvöldverðinn og freyðivín með. Ekki oft sem maður snæðir mat í flugvél af postulínsdiskum með silfurhnífapör í hendi og freyðivín úr glerglasi!



Við komuna til Tahiti (Papeete) var tilfinningin eins og að koma til Evrópu, en samt alls ekki. Þurftum enga áritun, lágmarkspappírsvinna og landamæraverðirnir sögðust ekki hafa séð svona vegabréf oft. 

Eyjarnar eru, eins og nafnið bendir til, undir yfirráðum Frakka, en með eigin svæðisstjórn, bæði á landsvísu og í sveitarfélögum, Frakkar ráða málum í löggæslu, dómskerfinu ofl. Margt minnir því að Evrópu í umgjörðinni, en alls ekki í fasi íbúanna og landslagi eyjanna.

Velkomin til landins og njótið dvalarinnar!


Miðvikudagurinn langi, 29. mars - Tímamismunurinn mikli

Það er gaman að skoða tímamismuninn á þessari leið, frá Ástralíu til Frönsku Pólýnesíu.

Við lögðum af stað frá Sydney kl. 10.00 að morgni þann 29. mars og lentum á Tahiti í Frönku Pólýnesíu kl. 01.30 eftir miðnætti sama dag! Fórum sem sagt aftur í tímann! Þessi miðvikudagur var því óvenjulega langur.

Næsta dag var haldið með ferju yfir á eyjuna okkar "Moorea" þar sem gistihúsið við ströndina beið okkar.

Á Moorea, eins og mörgum öðrum eyjum í Kyrrahafi, er aðeins einn ríkisvegur í kringum fjall eyjarinnar og því erfitt að villast!

Sjórinn er hreinn og loftið líka. Aldan unnar steinum á og mælir á sömu tungu og hún gerir um allan heim. Nú er kl. 10.00 að morgni 30. mars, en á Íslandi er komið kvöld, 20.00, 10 klst. munur.

Hér er stuttur fróðleikur um Frönsku Pólýnesíu:

Franska Pólýnesía, samanstendur af meira en 100 eyjum í Suður-Kyrrahafi sem teygja sig um meira en 2.000 km. vegalend. Eyjaklasarnir skiptast í svæðin; Austral, Gambier, Marquesas, Society og Tuamotu. 

Eyjaklasarnir eru þekktir fyrir kórallónin og strandhýsin. Á eyjunum eru hvítar og svartar sandstrendur, fjallendi og háir fossar.

 





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...