Við þurftum að bíða í um 12 klst. eftir tengifluginu til Sydney og því var tímanum eytt í Scrabble og hefðbundin spil.
Þarna var fólk á hlaupum, en ekki í innkaupum, því á 10 mín fresti hlupu flugvallargestir fram hjá okkur, alveg að missa af fluginu sínu.
Við sátum mjög nálægt "letibandi" sem er svona færiband á jafnsléttu fyrir þá sem nenna ekki að nota hefðbundið gólf til göngu. Skyndilega heyrðust miklir skruðningar og eldri maður, lá á brettinu, sem er líklega ekki mjög þægilegt.
Ungir starfsmenn á litlu kaffihorni hlupu til og hjálpuðu honum á fætur. Þá sáum við að hann var greinilega illa haldinn af sérstöku afbrigði áfengisneyslu sem nefnist "Gin og klaufaveiki", þar sem hann ranglaði um og færði þyngdarpunktinn til og frá í von um að standa í lappirnar. Það gekk ekki vel.
Unga fólkið hélt áfram að aðstoða þann rauðþrúttna með því að týna upp eigur hans og drösla honum í hliðið. Hvort hann fékk sæti í flugvélinni vitum við ekki.
Sydney
Við héldum í vegabréfseftirlitið við hliðið út í vél og þar mætti bóndanum (U) vörpuleg ung kona í lögreglubúning (L).
L: Hmmmm, Iceland, now that´s rare. Probably my first passport from Iceland. What language do you speak in Iceland?
U: Well, Icelandic............
L: Really, you have you own language?
U: Yes, we do.
L: I´ve always wanted to go there. Can you teach me some word, just small words, like, how do you say "how are you doing?"
U: Well, Hvernig hefur þú það?, (datt reyndar í hug að segja eitthvað allt annað, en þetta var nú löggan á landamærum..........)
L: Ok, how about, like, My name is?
U: Ég heiti....(ennþá ekki í stuði að rugga bátnum og segja eitthvað út í bláinn)
Þetta hélt eitthvað áfram og röðin við hliðina á mér gekk hratt og vel, en það var orðin ansi mikil og löng röð fyrir aftan mig (U). Frúin (H) var orðin nokkuð áhyggjufull, hélt að eitthvað væri að stoppa karlinn frá því að fara í vélina, en loks lauk íslenskukennslu á landamærum og við gátum farið í vélina í næturflug til Sydney.
Í Sydney er tímamismunurinn við Ísland 11 klst (Sydney á undan) og því orðið aðeins flóknara að eiga samskipti við Skerið, en allt í góðu.
Sydney is staðsett á austurhluta Ástralíu í "New South Wales" og hér búa rúmlega 5 milljónir manna. Borgin er snyrtileg og mengun ekki sérstaklega mikil.
Það voru mikil viðbrigði að geta gengið yfir á grænu ljósi, en slíkt var ekki hægt í Víetnam og Kambodíu þar sem umferðaljósin eru meira svona til viðmiðunar.
Mikil uppbygging (bókstaflega) er í háhýsum við höfnina í Sydney og þar er mjög mikið mannlíf og á götunum upp frá höfninni.
Við fórum í langa göngutúra um miðborgina og hafnarsvæðið. Í fyrri göngutúrnum rákumst við á söluturn þar sem boðið var upp á sjóferðir um höfnina. Flott, sagði bóndinn, förum í útsýnisferð og tökum myndir og svona.
Við skrifuðum undir skjal sem firraði bátafyrirtækið allri ábyrgð og héldum niður á flotbryggjuna. Þar var okkur sagt að skilja allt eftir, skó, töskur, myndavélar, síma og hvað eina. Dáldið spes, hugsuðum við. Farið í hlífðarbúninga! Já, ok, andfætlingarnir með öryggismálin á hreinu, enginn skal blotna!
En þetta var alls ekki útsýnisferð, bara alls ekki. Þetta var hraðbátaferð með endalausum snúningum og kafsiglingum!
Við urðum auðvitað hundblaut, varla þurr þráður þegar komið var í landi. Um borð var blastað Dire Straits og annarri tónlist frá þessum slóðum, allt í botni.
Eftir að hafa undið fötin og sótt eigur okkar, settumst við að snæðingi á veitingastað við flotbryggjuna. Þá sáum við að miðaldra og enn eldra fólkið fór í næsta bás við hliðina til að fara í skoðunarferð, en ekki í þennan hálf stjórnlausa þvottabala sem við ákváðum að væri hugguleg skoðunarferð um stærstu höfn í heimi frá náttúrunnar hendi.
Þið eruð dásamleg <3
SvaraEyða