föstudagur, 24. febrúar 2023

MB23 - 3. kafli - Thailand

Laugardagur, 25. febrúar 2023

Það er rúm vika liðin síðan við komum til Tælands frá Maldíveyjum. Brottfarardagurinn, 16. febrúar, frá Malé var svolítið spes. Við mættum 3 klukkustundum fyrir brottför og þurftum satt best að segja á þeim rúma tímaramma að halda. 

Við fórum í gegnum alls 4 raðir ýmiskonar sem tóku sinn tíma. Netsambandið í stöðinni var svipað og þegar maður reyndi að stilla á Rúv í Hitachi sjónvarpinu á sínum tíma, slitrótt með afbrigðum. Hvað með það, engin þörf á WiFi sambandi, bara tímaeyðsla, héldum við. Í 1. röðinni var allur farangur skannaður, 40 mín þar, hitinn mikill, engin loftkæling í stöðinni, takk fyrir það.

2. röðin var innritunin, ekkert mál, nema hvað að við þurftum að bóka flug frá Tælandi til að mega fara frá Maldíveyjum. Nú reyndi á nettenginguna góðu, eða þannig! Við hófumst handa við að bóka flug, en gekk brösulega. Loks tókst að bóka flugið þrátt fyrir að tengingin hafi dottið út nokkrum sinnum á meðan! Innritun klár.

Röð 3 var vegabréfseftirlitið og Imuga vottorðið, þetta voru aðrar 40 mín. 

4. röðin var síðan hefðbundin vopnaleit. Þarna var fólk farið að hlaupa um og kalla út um allt, enda orðið of seint í sitt flug, vegna seinagangs af betri gerðinni. Eitthvað var lítið um framlegð í verslununum flugstöðvarinnar þennan daginn að minnsta kosti.

AirAsia tók á loft á hárréttum tíma og flugið var bara fínt.  Allt gekk mjög hratt og örugglega fyrir sig eftir lendingu á Bangkok International flugvellinum, 20 mín og allar töskur klárar!

Bílstjórinn ók okkur svo í myrkrinu til Sam Roi Yot sem er staðsett til suðurs á vesturhluta Tælands í Beach Village hverfið þar sem íbúðina var að finna, eftir smá leit. Virkilega flott íbúð með huggulegu sundlaugarsvæði. Nú var mesti ferðahrollurinn úr okkur, höldum við!






Vikan hefur mest farið í afslöppun og stuttar ferðir á reiðhjólum um svæðið niður við ströndina. Ströndin er fín, en ekkert í líkingu við ströndina á Gulhi á Maldvíeyjum.

Hér í landi er allt mjög vestrænt, eins og við er að búast. Hér í Beach Village er lítið "gym" og svo er mjög næs að fá gott nudd í hitanum við ströndina, sem er 30+ yfir daginn og 24 á nóttunni. 

Við erum svolítið úti í sveit hérna, kýrnar með áberandi herðakamb, mikið fugla- og skordýralíf. Ávextirnir eru einkar góðir hérna, sérstaklega mangóið og ananasinn. Drykkir yfirleitt frekar ódýrir, bjór og gos, en léttvín fremur dýrt. 

Hér má yfirleitt ekki kaupa áfengi í verslunum á milli kl. 14.00 og 17.00 á daginn. Tæland er reyndar mjög spes að mörgu leyti, því margt er ólöglegt, sem þó er í fullum gangi fyrir allra augum!

Hér getur þú keypt fúkkalyf (sýklalyf), án lyfseðils í apótekum, þó þú hafir líklega enga hugmynd um hvaða lyf passar, bara eitthvað breiðvirkt takk!

23. febrúar er dánardagur Halldórs Elís, föðurs og tengdaföðurs okkar. Sá dagur var þungur og minningar leituðu á okkur, eins og við er að búast. Hugsum hlýlega til hans alla daga.

Fórum í gær, 24. febr, til Hua Hin, einkum til að skoða götumarkaðinn sem opnar kl. 18.00, alla daga. Hua Hin er nokkuð snyrtileg, enda er kóngurinn þeirra með aðsetur á svæðinu og því er reynt að pússa allt og bóna. Reyndar er hann ekki mikið heimavið, skilst okkur, meira upptekinn í Þýsklandi eða eitthvað..........

Ströndin var full af ferðafólki og mjög lík því sem við þekkjum frá sólarströndum í Evrópu. Miklu skynsamlegra að fljúga styttri vegalendir. Þar var líka hægt að fara á hestbak, furðulegt eiginlega, svona eins og að bjóða upp á hestabak í Hlíðarfjalli við Törfateppið eða eitthvað álíka. Hver væri ekki til í að skella sér á bak, jafnvel með brettið áfast!!


Það var mjög áberandi á þessu svæði, allur sá fjöldi vestrænna eldri karla með ungar konur upp á arminn. Þetta er nú svo sem á allra vitorði, en það bætir ekkert úr skák. 

Yfirleitt eru þetta karlar ca. 60-80 ára með konum á aldrinum 20-30 ára, virkilega dapurlegt að horfa upp á slíkt, enda í langflestum tilfellum verið að nýta sér bága félags- og fjárhagsstöðu þessara kvenna, þó einhverjir haldi eflaust öðru fram. Okkur skilst reyndar að ástandið í Pattaya, skammt frá Bangkok sé mun meira áberandi hvað þetta varðar. Það er hins vegar eitthvað minna um konur á aldrinum 60-80 ára í fylgd með ungum karlmönnum....






Við komumst líka að því að Tælendingar eru ekkert sérstaklega uppteknir af göllum í fasteignum, og einkum þá þeirra galla sem snúa að þakleka. Við Íslendingar þekkjum vel þá frábæru hugmynd að vera með flöt þök, sem reyndar breytast reglulega í sundlaugar annað slagið. Hver hefði nú gert ráð fyrir því!!

Hér virðist ekki alltaf vera sett vatnsvörn undir "gólfefnið" á þökunum og vatnshallinn dugar nú ekki alltaf þegar rignir hér duglega. Það er nefnilega svo að um 10 íbúðir hér í nágrenni við okkur glíma við þakleka, sem í einhverjum tilfellum hafa kallað á byrja aftur á fokheldisstiginu. 

En þetta stendur víst allt til bóta, á að laga á næstu vikum. Enginn leki hjá okkur, sem betur fer.

Við hjónin "eðlumst" reglulega í íbúðinni, engan æsing gott fólk, þetta eru eðluveiðar sem yfirleitt fara fram síðdegis og á kvöldin þegar þessi litlu sætu skriðdýr koma sér fyrir við, efst á veggjunum. Þá er ekkert annað í stöðunni en að beita hefðbundnum flugnaspaða og láta vaða, sorrý!

Frúin er dugleg við eldamennskuna, hefðbundin tælensk matargerð, spæsí og góð. Hér var Bolludagurinn haldinn hátíðlegur, fengum ofn lánaðan úr næstu íbúð og sultan og rjóminn á sínum stað.

Okkur var nú sagt að ekkert nauðsynlegt væri að læsa íbúðinni yfir daginn, svo við læstum þá bara ekkert. En dag nokkrun var búið að stela fínu Ray Ban sólgleraugum bóndans, ansans. Reyndar var engu öðru stolið, humm spes. En það tók okkur ekki langan tíma að þjófkenna hálft samfélagið hér, nágranna og starfsfólk. Frúin var nú raunar viss um að bóndinn hefði sjálfur gerst sekur um hvarfið. Hún hafði rétt fyrir sér, þau voru uppi á þakinu auðvitað, eftir skoðunarferð. Enginn þjófnaður á ferðinni og við báðumst afsökunar í hljóði, en læsum nú samt alltaf núna.


Þangað til næst!



2 ummæli:

  1. Takk fyrir uppfærsluna elsku vinir. Yndislegt að fylgjast með ykkur. Það er eitt sem ég er að spá í. Er HH nokkuð að bregðast við eðlunum eins og íslensku hagamúsunum😉

    SvaraEyða
  2. Hahahaha viðbrögðin er ekki alveg jafn ofsafengin en mér er nú ekki vel við þessi kvikindi, finnst betra að hafa þær úti :)

    SvaraEyða

MB23 - 23. kafli - New York og Massachusetts

28. apríl - 9. maí Las Vegas - Syracuse Flugið frá Las Vegas var mjög þægilegt og gaman að fljúga yfir fjallgarðana í Colorado, snjór í fjöl...